140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Við erum sammála um að mikilvægi þessa máls er ekki lítið, það er gríðarlegt, og við erum að tala hér um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Um 35.000 manns hafa beint eða óbeint afkomu sína af þessari grein. Að sjálfsögðu erum við því að gæta almannahagsmuna þegar kemur að svo brýnu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem ég á ekki sæti í atvinnuveganefnd, um upplifun hans af því hvernig þetta mál var allt undirbúið. Ég rak augu í nefndarálit hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Í svörum umsagnaraðila við fyrirspurnum 2. minni hluta kom fram að ekkert samráð var haft — ekki neitt við neinn. Ekki við Hagstofuna, þrátt fyrir að aðferðafræðin ætti uppruna sinn þar. Ekki við hagsmunaaðila greinarinnar, þrátt fyrir að meiri hlutinn haldi fram að byggt sé á niðurstöðu samráðs- og sáttanefndar sjávarútvegsráðherra frá hausti 2010. Ekki við sveitarfélögin, þrátt fyrir að samkvæmt frumvarpinu sé tekin tíu sinnum hærri upphæð út úr sjávarútvegssamfélögunum en áður var. Ekki við samtök á vinnumarkaði, þrátt fyrir stöðugleikasáttmála og samninga við þau við gerð kjarasamninga. Allir aðilar gagnrýna harðlega samráðsleysið og undir það tekur 2. minni hluti.“

Þetta er þvert á það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur talað um. Þegar þetta mál var kynnt var sagt að víðtækt samráð hefði verið haft við helstu hagsmunaaðila, og þá er væntanlega verið að vísa til sveitarfélaga, samtaka launafólks, atvinnulífsins og fleira mætti telja. Nú kemur það fram, í þessari umsögn hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, haft eftir þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar, að samráðið hafi í raun ekki verið neitt. Hver er að segja satt í þessum efnum? Er það virkilega svo, eins og hér kemur fram, að samráðið hafi verið lítið og nær ekkert?