140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég svo sem ekki kunnugur því hvernig hv. þingmaður og samþingmenn hennar hátta daglegum störfum sínum en mér brá dálítið í morgun þegar ég fletti Morgunblaðinu og sá yfirlýsingu frá 131 sveitarstjórnarmanni. Þar eru samflokksmenn hv. þingmanns nokkuð áberandi en við sjáum einnig marga samfylkingarmenn og vinstri græna.

Þar sem hv. þingmaður hefur setið í ríkisstjórn velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður telji ekki efni til þess fyrir núverandi ríkisstjórn að skoða sinn gang og velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að slá þessu máli á frest, eða eiga í það minnsta samræður við forustumenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem skrifa undir þetta plagg þar sem þeir mótmæla vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í málinu, hvort ekki sé rétt í anda lýðræðis og samræðu að stjórnarflokkarnir ræði við sitt bakland sem greinilega er að bresta í þessu máli. Það er svo sem ekki bara þetta bakland, þ.e. harðasti kjarni margra samfylkingarmanna og vinstri grænna vítt og breitt um landið, heldur horfum við upp á það að allar umsagnir um málið eru neikvæðar nema ein sem er frá Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ. Það hefði kannski verið efni fyrir nefndina að kalla það félag fyrir nefndina og heyra rökstuðninginn við málið.

Ég velti fyrir mér í ljósi allra þessara varnaðarorða frá sveitarstjórnarmönnum, atvinnulífinu og fleiri aðilum: Hvernig telur hv. þingmaður að við eigum að vinna úr þessari stöðu? Ég hef stungið upp á að slá málinu á frest og setja í sáttafarveg til að reyna að ná einhverri sátt, þ.e. ef vilji er til þess. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji að sátt náist um frumvarpið eins og það er.