140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsi yfir ánægju með þennan tón hjá hv. þingmanni, þ.e. þennan sátta- og bjartsýnistón um að við reynum að ná einhverri lendingu, sem er í raun og veru samhljóða þeirri áskorun sem sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum sendu til okkar alþingismanna, að við ættum að reyna að vinna málið með þeim hætti sem hv. þingmaður lagði til.

En vegna þessara orða hv. þingmanns og sannfæringar hennar um að við eigum að reyna að ná sátt hefur mér fundist það miður að heyra stjórnarliða tala þannig um hv. þingmann og reyndar þann sem hér stendur og aðra stjórnarandstæðinga að þeir séu að fara leið einhverrar sérhagsmunagæslu í þessu máli, ekki almannahagsmuna. Má þá ekki spyrja sig að því í ljósi þess málflutnings sem bæjarfulltrúar allra flokka hafa haldið hér fram að þeir séu þá að leggjast á sveif með þeim sem að sögn stjórnarliða ganga (Forseti hringir.) erinda sérhagsmunahópa? Því hafna ég algjörlega. Verðum við ekki að koma umræðunni upp úr þessu hjólfari?