140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir það með hv. þingmanni að hæstv. ríkisstjórn hlustar aldrei á nein varnarorð þegar ráðist er í skattahækkanir, alveg sama hverjar þær eru. Hv. þingmaður fór aftur yfir það að virðisaukaskattstekjurnar hefðu dregist saman og skiluðu þar af leiðandi ekki því sem ætlað var í ríkissjóð. Það er líka dálítið áhugavert að umsagnaraðilar vöruðu við því að hækka skattinn og sögðu að það væri varhugavert að fara í svona miklar skattahækkanir. Núna virðist vera þannig að hæstv. fjármálaráðherra hafi uppgötvað að það vanti töluvert í kassann og hann þarf að fara að fjármagna kosningaloforðin og fjárfestingarstefnuna sem á að selja fyrir næsta kjörtímabil með því einmitt að ráðast á sjávarbyggðirnar og sveitarfélögin úti á landi.

Það hafa borist mjög margar umsagnir frá bæjarstjórnum sjávarbyggða vítt og breitt um landið þar sem varað er við afleiðingunum sem geta hlotist af því að taka tugi milljarða út úr sjávarútveginum með skattheimtu. Getur verið að hæstv. ríkisstjórn meti það þannig að það sé heppilegra að fara þessa leið og hún hafi kannski ekki miklar áhyggjur af því hverjar afleiðingarnar verða því að þær koma væntanlega ekki í ljós fyrr en hugsanlega á næsta ári og þá er kjörtímabilið liðið hjá hæstv. ríkisstjórn og aðrir taka við verkefnunum? Þetta er svo sem ekki nýtt því að ríkisstjórnin tók líka fyrir fram greidda skatta af stóriðjunni, það er ágætt að rifja það upp, upp á 3,6 milljarða á árunum 2010, 2011 og 2012, sem á að byrja að greiða til baka 2013, þegar ríkisstjórnin er farin frá sem betur fer.

Það er því allt á sömu bókina lært, skilin eru eftir vandamál til úrlausnar þegar hæstv. ríkisstjórn fer frá. Mér finnst í þessu máli eins og verið sé að reyna að fjármagna kosningaloforðin í von um að ríkisstjórnin fái eitthvert fylgi því að það er ekki að sjá að það sé mikið, a.m.k. ekki í skoðanakönnunum.