140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hv. þingmaður kom aðeins inn á málflutning þingflokks Samfylkingarinnar, bæði almennt gagnvart grunnatvinnugreinum landsins og eins þessari hótanapólitík sem virðist því miður vera orðin allt of algeng í sölum Alþingis.

Frú forseti. Sá sem hér stendur ætlar ekki að leggja dóm á það hvort slíkt hafi viðgengist í sögunni en það er hins vegar mjög alvarlegt hversu opinská hæstv. forsætisráðherra er að verða og margir hv. þingmenn, hvernig þau koma ítrekað fram með hnefann á lofti og hótanir, ekki bara gagnvart þinginu heldur gagnvart þjóðinni og öllu mögulegu.

Mig langaði að velta því upp við hv. þingmann hvað hann telji að búi að baki því að við erum farin að sjá þetta í ríkari mæli en verið hefur. Við erum farin að sjá hæstv. forsætisráðherra í miklu meira mæli tala með hnefann á lofti um Alþingi eins og færiband sem eigi að afgreiða málin, rétt eins og Alþingi sé stimpill. Hv. þm. Skúli Helgason kom til dæmis hingað upp í morgun og sagði eitthvað á þá leið að útgerðarmönnum væri skítsama um starfsfólk sitt o.s.frv.

Hvað býr að baki því að Samfylkingin er farin að beita þessari aðferð í meira mæli og er opinskárri en áður hefur verið? Getur verið að það sé vegna þess að flokkurinn sé að verða ráðþrota með þau mál sem hann hefur haft efst á stefnuskrá sinni? Það liggur ljóst fyrir að flokkurinn er að dala í skoðanakönnunum, jafnvel þó að þau (Forseti hringir.) mál sem hann hefur sett á oddinn séu til umræðu á þingi. Hvað (Forseti hringir.) veldur því að við erum farin að sjá þetta svona ítrekað í þinginu og á meðal þjóðarinnar?