140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

rekstur líknardeildar Landspítalans.

[10:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þegar af lokun líknardeildar Landakotsspítala varð í aðdraganda fjárlaga fyrir árið 2012, þrátt fyrir að þá væru settar inn á milli umræðna um það bil 60 milljónir til Landspítalans, reiknuðu margir með að þær milljónir rynnu í að halda líknardeild Landakotsspítala opinni. Svo varð ekki. Í umræðum á þingi og úti í samfélaginu var þá rætt að líknardeildin í Kópavogi mundi taka við því sem líknardeildin á Landakoti hafði sinnt fram til þessa.

Nú standa málin þannig að frjáls félagasamtök hafa tekið að sér líknardeildina í Kópavogi, unnið þar ómetanlegt starf við endurbyggingu og uppbyggingu þess húsnæðis sem Landspítalinn á. Þar bíða glæsileg húsakynni þess að hægt verði að veita þeim þjónustu sem á þurfa að halda. Þá kemur í ljós, virðulegur forseti, að þessa líknardeild er ekki hægt að taka í notkun. Þetta endurnýjaða, stækkaða húsnæði líknardeildar landspítalans í Kópavogi, sem frjáls félagasamtök hafa endurbyggt, er ekki hægt að taka í notkun og þau pláss sem þar eru er ekki hægt að nýta vegna fjárskorts Landspítalans.

Nú vil ég spyrja hæstv. velferðarráðherra í mestu vinsemd hvort ekki sé hægt með einum eða öðrum hætti að finna það fjármagn sem til þarf til að reka líknardeildina í Kópavogi og stuðla þannig að því að þeir sem eru á síðustu metrum lífsins geti notið þess sem þeir eiga rétt á, þ.e. þjónustu, og hvort ekki sé hægt að finna og þá forgangsraða fjármunum ríkisins með þeim hætti að slík verkefni njóti forgangs (Forseti hringir.) umfram mörg önnur gæluverkefni sem við þingmenn og hæstv. ríkisstjórn erum að leggjast í á þessum síðustu og verstu tímum.