140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér um ákveðinn uppboðsmarkað. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um það að ég tel allar útgerðir standa undir svokölluðu fastagjaldi eða grunngjaldi sem á að standa undir kostnaði af rekstri viðkomandi stofnunar sem þjónustar sjávarútveginn, hvort heldur sem það er Fiskistofa eða Hafrannsóknastofnun eða aðrar. En við verðum líka að átta okkur á því, og það veit hv. þingmaður jafn vel og ég, að þegar menn taka hagræðinguna út úr greininni eins og til dæmis í seinna frumvarpinu, er erfitt að segja nákvæmlega til um það hvort eðlilegt gjald sé 20 kr., 30 kr. eða 40 kr., því að það ræðst auðvitað af því hvernig hitt málið endar. Hv. þingmaður hlýtur að geta verið mér sammála um það vegna þess að það er svo misjafnt hvernig þetta hefur lagst á. Ég veit að hv. þingmaður þekkir hvernig það er með svokallaða potta þar sem fjórar fisktegundir borga inn í, á sama tíma og menn verða fyrir skerðingum. Til dæmis hefur ýsukvótinn verið skertur um rúm 50% á þremur árum. (Forseti hringir.) Í þannig stöðu verða menn alltaf að vega hlutina og meta og það verður að ná þessu meira niður á einstaka útgerðarflokka til þess að menn geti farið í vitræna umræðu um það hvað útgerðirnar þola í raun og veru.