140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða þann fund sem haldinn var á Austurvelli í gær og var að mínu mati mjög merkilegur því að þarna eru ákveðin tímamót á ferð. LÍÚ hefur haldið á lofti gífurlegum hræðsluáróðri gegn þeim tveimur frumvörpum sem lögð hafa verið fram á Alþingi og að lokum boðuðu þeir til þess fundar sem átti að reka smiðshöggið á að jarða frumvörpin hér á Alþingi.

Raunin varð önnur. Á Austurvöll mætti fjöldi fólks, ekki bara latte-fólk úr 101 Reykjavík heldur fjöldi fólks af landsbyggðinni. Ég ræddi við margt fólk á Austurvelli í gær, var þar allan tímann, þar þekkti ég margt fólk af landsbyggðinni og ræddi við það, sem þekkti á eigin skinni óréttlæti kvótakerfisins í gegnum árin. Og það sýndi því samstöðu að við hér inni, stjórnvöld, værum að gera tilraun sem við ætluðum að ljúka, þ.e. að breyta þessu óréttláta kvótakerfi. (Gripið fram í: Tilraun.)

Það er ljótur leikur að egna saman landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu á þeim forsendum. Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í því að við breytum þessu kerfi nú. Þjóðin á rétt á að fá arð af þessari auðlind sinni með eðlilegum hætti og það er enginn landsbyggðarskattur því að við búum hér saman, ein þjóð í einu ríki, með sameiginlegan ríkissjóð og við ætlum að deila því fjármagni sem kemur inn í formi auðlindarentu aftur út til þjóðarinnar, til uppbyggingar í samgöngumálum, til menntakerfisins, í græna hagkerfið og í nýsköpun og aðrar greinar sem eru til framþróunar fyrir landsbyggðina.

Ég ráðlegg mönnum hér inni að hætta að etja saman landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Það er ljótur leikur.