140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Það er nefnilega nokkuð merkilegt og í raun mjög óskynsamlegt að vera með bæði þessi mál opin í einu. Vinstri höndin vill að við göngum í Evrópusambandið með öllum þeim göllum sem þar eru — meira að segja var ákveðið á fundi í gær hjá Evrópusambandinu að nú mættu Evrópuþjóðirnar taka upp sitt eigið vegabréfaeftirlit sem er algjör nýlunda í þessu kerfi öllu varðandi frjálst flæði fólks — á meðan hægri höndin umbyltir íslenska sjávarútveginum. Í stað þess að sjávarútvegurinn fái að vera hinn stóri og trausti klettur sem stóð af sér hrunið er verið að breyta honum um leið og sótt er um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er óskiljanleg stefna hjá ríkisstjórninni. Það er verið að skapa enn meiri glundroða og mikla óvissu í sjávarútvegi á sama tíma og verið er að sækja í Evrópusambandið sem ríkisstyrkir sjávarútveg sinn (Forseti hringir.) en hér er verið að leggja til aukin gjöld á íslenskan sjávarútveg. Þetta gengur ekki upp.