140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega kolrangt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Það er sérstaklega tekið fram hvernig á að ráðstafa leigutekjunum. Það er sérstaklega farið yfir það hvernig á að ráðstafa sérstöku veiðigjaldi á næstu árum. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar hvernig á að gera það. Önnur ríkisstjórn verður þá að breyta því, það er bara þannig.

Það voru afleiðingar af allt annarri stefnu sem leiddu til hnignunar landsbyggðarinnar eins og þeir sem komu fyrir atvinnuveganefnd, t.d. fyrir hönd Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, lýstu svo vel fyrir nefndinni, þ.e. hvernig hnignun atvinnulífs og íbúaþróunar á Vestfjörðum hófst í því tilfelli og hvenær henni nánast lauk. Þetta höfum við séð um allt land. Í minni gömlu heimabyggð norður við Eyjafjörð höfum við séð þetta gerast sömuleiðis.

Þeir fjármunir sem nú er verið að ná í eru ekki til ráðstöfunar í dag eins og haldið hefur verið fram. Það er ekki verið að ráðstafa þeim til að byggja upp innviði samfélagsins. Það er það sem við ætlum að gera. Það er stefnubreytingin. Með því mun endurreisn og viðreisn landsbyggðarinnar hefjast.