140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:27]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er stórt spurt. Ég hef löngum gagnrýnt hér á þingi og reyndar áður en ég settist á þing það sem ég hef sagt að væri framsal löggjafarvalds til framkvæmdarvaldsins. Það er hluti af þessum pakka. Þegar ég settist á þing og var í stjórnarandstöðu gáfust mér allmörg tækifæri til þess að setja þessa gagnrýni mína fram. Það er vegna þess að í mörgum frumvörpum segir nánast ekkert um framkvæmd eða annað slíkt heldur bara: Þetta skal ákveðið í (Gripið fram í.) reglugerð. Og þegar fara á að setja einhvern hóp upp til að vega og meta það þar fyrir utan er maður kominn langt inn á gráa svæðið eða það dökka, jafnvel dökksvart. Það stenst ekki.

Það segir í stjórnarskránni að mæla eigi fyrir skattlagningu í lögum, í lögum skuli það ákveðið. Alla óvissu um það á auðvitað að túlka skattgreiðandanum í hag og vera með eitthvert mat á því hver greiði og hver greiði ekki. Það er ávísun á að mál falli fyrir dómstólum að vera með óljósar skattlagningarheimildir. Það eru mörg dæmi þess. Menn byrja á því að finna hvar vafinn á að liggja og ef vafi leikur á þá á að ákveða hver á að njóta góðs af vafanum. Í þessu tilviki er skattlagning íþyngjandi eins og mörg önnur boð og bönn, ekki það að ég mæli gegn skatti og hv. þingmaður gerir það eflaust ekki, en skattlagningin er íþyngjandi, þá túlkar maður reglugerðir, lög og annað bak við það, þröngt og vafa um túlkun skattgreiðandanum í hag.