140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:22]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann talaði um 70% skattlagningu á hagnað. Nú er það svo að fyrir atvinnuveganefnd voru lögð gögn úr rafrænum skattframtölum 402 útgerðarfyrirtækja. Samtals var hagnaður þeirra á starfseminni 240 milljarðar. Þegar tekið hafði verið tillit til alls þess sem talið er til frádráttar í skattframtölum, þ.e. allur kostnaður, þar með talin laun og allt annað slíkt, olía og hvað eina og síðan að auki allar afskriftir og öll vaxtagjöld þá voru eftir af hagnaði á árinu 2010 47 milljarðar. Ef þessi veiðigjöld nema 15 milljörðum hvernig getur þingmaðurinn reiknað þá 15 milljarða af 47 upp í 70%. Samkvæmt minni barnaskólastærðfræði eru það 31,9%.