140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er staddur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þá er ekki úr vegi að rifja aðeins upp orð hans við sams konar aðstæður og taka undir þau. Ég ætla að rifja þau upp, með leyfi forseta:

„… ekki verði brotin sú hefð sem yfirleitt er reynt að fylgja, að það séu ekki kvöld- og næturfundir tvo daga í röð heldur líði gjarnan sólarhringur á milli þangað til aftur er gripið til slíkra úrræða …“

„… alveg morgunljóst að umræða um málið muni verða hér einnig á morgun og þá er auðvitað langeðlilegast að gefinn sé skikkanlegur lágmarkshvíldartími milli daga.“

„Það er líka ljóst, herra forseti, að það er í reynd þrengt að rétti manna til þess að tjá sig um mál þegar svona er að verki staðið. Menn veigra sér auðvitað við því að nýta sér rétt sinn til fulls til þess að tala um svona mál ef það kostar næturfundahöld og vökur manna og starfsfólksins hér“ marga daga í röð.

„Ég held því að það sé ekki skynsamlegt að vera að keyra hér á löngum næturfundum þannig að mannskapurinn sé þeim mun dasaðri daginn eftir.“

Virðulegi forseti. Þetta eru orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra. (Forseti hringir.) Kannski ber hann fleiri titla í dag í afleysingum en ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra.