140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé alveg rétt. Ég er sammála hv. þingmanni um að í rauninni er ekki hægt eða mjög erfitt að tala um hver fjárhæð gjaldsins verður fyrr en menn hafa séð heildarmyndina, hvort menn ætla að afgreiða fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem er enn í meðförum atvinnuveganefndar og síðan hvaða leiðir við sjáum til að ná þessari niðurstöðu um veiðigjald eða veiðiskatt. Hv. þingmaður bendir á aðrar leiðir en farnar eru í þessu máli, leiðir sem ekki er unnt að ræða vegna þess að menn vilja ekki setjast niður og skoða málið í stærra samhengi.

Hv. þingmaður var að byrja að svara því af hverju málinu er svona fyrir komi eins og staðan er í dag. Við höldum áfram þvert gegn orðum hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar frá fyrri tíð, kvöld eftir kvöld, nótt eftir nótt, til að ræða þetta mál. Af hverju telur hv. þingmaður svo vera? (Forseti hringir.) Er það út af því að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna eru með ákveðna kergju, eru þeir að sýna stolt eða veigra þeir sér við (Forseti hringir.) að setjast niður með okkur sem viljum reyna að ná sátt?