140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að þau verkefni sem nefnd eru í þessari svokölluðu fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem almennt er kölluð kosningaplagg Samfylkingarinnar, eru misbrýn. Flest, jafnvel öll eru ágætisverkefni. Mörg þeirra ættu að vera hagkvæm, þau ættu að vera verkefni sem er hagkvæmt fyrir ríkið að fjárfesta í, sem skila með öðrum orðum meiri tekjum til lengri tíma litið en kostnaði fyrir samfélagið. En til að geta ráðist í slík verkefni — við getum kallað þau framfara- eða uppbyggingarverkefni — þurfa undirstöðurnar að vera sterkar og mikilvægasta undirstaða íslensks atvinnulífs í gegnum tíðina hefur verið sjávarútvegur. Ef menn ætla að höggva þá stoð að einhverju leyti undan hagkerfinu er svigrúmið minna, ekki meira, til að ráðast í framfarafjárfestingar. Það er minna vegna þess að ef störf tapast í sjávarútvegi, jafnvel þúsundir starfa, eins og nefnt hefur verið í umsögnum um þessi frumvörp, er það miklu dýrara en sem nemur hugsanlegum ávinningi af þeim verkefnum sem hv. þingmaður taldi upp. Það kostar miklu meira að búa til nýtt fyrir hvert starf sem tapast en að viðhalda því starfi sem orðið hefur til, ekki hvað síst í undirstöðuatvinnugreinum.