140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get tekið undir með þingmanninum að það er sérkennilegt að menn sem eru að gera slíkar breytingar á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar skuli ekki leggja út í rannsóknir á áhrifunum áður en þeir fara af stað.

Nú hef ég fyrir framan mig grein sem framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum ritaði. Í þeirri grein birtir hann töflu sem heitir Skipting tekna í útgerð, þ.e. hvert peningarnir sem koma inn í útgerðina fara. Framkvæmdastjórinn byggir þetta á mikilli reynslu, bókhaldi langt aftur í tímann og tölum frá Hagstofunni. Við erum að tala um raunverulegar tölur þannig að því sé bara haldið til haga. Miðað við þessa uppsetningu þar sem gengið er út frá hverju slægðu þorskígildiskílói fara 55,7% til starfsmanna í formi launa eða annars, og svo aðföng og efni. Þessi hluti fer strax eitthvað annað, út í samfélagið með einhverjum hætti, í að efla önnur fyrirtæki og efnahagslífið með því að starfsmennirnir hafa þá fjármuni, þeir fá náttúrlega laun, til að kaupa fyrir og byggja sér sólpalla og allt það.

Einnig kemur fram að 17,7% fara til ríkis og sveitarfélaga. Stærsti hlutinn fer þegar í dag út úr þessum félögum beint í að stuðla að bættum efnahag á Íslandi. Þar af leiðandi er stuðlað að því að heimilin í landinu búi betur. Mér sýnist af þessari töflu sem 55,7% fari beint og svo bætist að sjálfsögðu við það sem fer til ríkis og sveitarfélaga í að efla alla þá þjónustu (Forseti hringir.) sem þessir opinberu aðilar standa undir.