140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Eins og kom fram hjá honum hafa verið gerðar fjölmargar breytingar á því frumvarpi sem hér um ræðir af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar. Þó svo þessar tillögur séu á ábyrgð meiri hlutans er því ekki að neita að hluti þeirra í það minnsta hefur verið unninn í nánu samráði við minni hluta atvinnuveganefndar og sumar þeirra eiga jafnvel rætur sínar að rekja þangað sem undirstrikar þá samvinnu og þá miklu vinnu sem hefur farið fram í nefndinni.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að sú umræða sem nú hefur staðið yfir í rétta viku í þingsalnum um þetta mál sé orðin nægilega þroskuð þannig að við getum tekið þetta mál aftur inn í atvinnuveganefnd og haldið áfram þeirri ágætu vinnu sem var í nefndinni í málinu og reynt að taka tillit til þess sem þegar hefur komið fram í umræðunni eða hvort þingmaðurinn telji að málið sé ekki fullrætt.