140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður á sæti í atvinnuveganefnd og hefur þar af leiðandi verið með þetta mál til meðferðar í nefndinni ásamt ýmsum öðrum málum sem eru föst í þeirri ágætu nefnd, kannski ekki föst en hafa fengið litla umfjöllun og augljóst að langt er í það að þau komi inn í þingið ef á að sinna almennilegri vinnu við frumvörp, þá á ég við rammann. En ég ætla ekki að spyrja út í rammann núna, enda erum við ekki að tala um það mál.

Ég fæ ekki séð að nokkur einasta umsögn um þetta mál sé jákvæð eða hvetji til þess að það sé samþykkt einn, tveir og þrír eins og það kemur af kúnni. Mér sýnist að þær breytingar sem hafa verið lagðar til séu lítils háttar miðað við það sem farið var af stað með, mér sýnist það við þennan yfirlestur. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt hjá mér að fáar eða engar umsagnir hafi verið þessum frumvörpum í vil, ef má orða það þannig. Og eins hvort þingmaðurinn telji að það sé þá ekki mikilvægt að láta í framhaldi — af því að manni sýnist að lítið tillit sé tekið til athugasemda í breytingartillögum — hóp sérfræðinga fara yfir breytingartillögurnar, sem hafa meðal annars skilað inn gögnum eða skýrslu um frumvörpin eins og þau komu fyrst, þannig að við förum ekki í gegn með kannski verri frumvörp en komu inn til þingsins því að veruleg hætta er á því séu þau ekki gegnumlýst af þar til bærum sérfræðingum.