140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eflaust gætum við leitað meiri hagræðingar í sjávarútvegi með því að taka ekki tillit til byggðasjónarmiða eins ríkt og gert hefur verið og þeirrar dreifingar sem við erum með á útgerðarformi sem stuðlað hefur verið að með reglunum. Ef við værum með fleiri stærri útgerðir og til dæmis enga smábáta í kerfinu væri hagkvæmnin í kerfinu örugglega meiri og kerfið líklegra til að geta borgað hærra auðlindagjald. En við þingmenn í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum erum taldir af stjórnarþingmönnum vera taglhnýtingar og gæslumenn sérhagsmuna stærri útgerða í landinu. Þessir flokkar telja sig aftur á móti málsvara þeirra sem minna mega sín í kerfinu sem munu, samkvæmt því sem er nú komið fram, ekki borga mikið veiðigjald.

Það hafa verið gerðar miklar breytingar á kerfinu í gegnum tíðina og þær hafa nánast allar snúið að því að minnka umsvif stærri útgerða en auka hlut minni útgerða. Þetta hefur verið gert með það að markmiði að efla byggðirnar sem víðast. Þetta hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þeim breytingum sem þeir gerðu á kerfinu á löngum stjórnartíma. Þetta eru yfirlýst markmið núverandi stjórnarflokka með þeim breytingum sem þeir ætla að framkvæma (Forseti hringir.) en allar skoðanir hafa sýnt að þetta frumvarp gengur gegn markmiðum sínum. Væri því ekki eðlilegt, að mati þingmannsins, að menn færu að skoða það í fullri alvöru (Forseti hringir.) hvort núverandi stjórnarflokkar séu sérstakir gæslumenn stærri útgerða á kostnað hinna og fara að nefna hlutina réttum nöfnum?