140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil eindregið taka undir með þeim þingmönnum framsóknarmanna sem töluðu á undan mér undir þessum lið, fundarstjórn forseta, og ítreka óskir þeirra og vil gera þær að mínum. Ég vil gjarnan að aðrir ráðherrar en hæstv. sjávarútvegsráðherra, með fullri virðingu fyrir honum, verði viðstaddir og tel mikilvægt að forsætisráðherra sem hefur mikið um þetta mál að segja sitji með okkur í salnum og taki þátt í umræðunni.

Ekki síður vil ég undirstrika afstöðu okkar sjálfstæðismanna og ég veit að þingflokksformaður okkur hefur margítrekað við forseta að það sé hægt að setja þetta mál til hliðar og koma öðrum mikilvægum málum ríkisstjórnarinnar að sem hún leggur áherslu á, hvort sem þau eru í þágu heimila, fyrirtækja eða annarra. Ég vil undirstrika að það er gríðarlega mikilvægt að það komi fram að við erum meira en reiðubúin til að hleypa að öðrum málum enda tel ég ljóst, með hliðsjón af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað á umliðnum dögum, að ýmislegt sé hægt að gera í þessu máli til að sátt megi nást.