140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Varðandi þá hugmynd sem kom fram í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar þá vitum við sem erum í stjórnarandstöðu að reynslan af því að reyna samkomulag við ríkisstjórnina í miðri umræðu og slíta 2. umr. er ekki góð. Það er fátt sem heldur þegar kemur að samkomulagi. Þess vegna er mikilvægt að stjórnarandstaðan hafi vissu fyrir því að það verði haldið í þessu máli. Ég vil undirstrika að þótt umsagnir umsagnaraðila um þetta frumvarp gefi ríkisstjórninni algera falleinkunn teljum við sjálfstæðismenn að við eigum ekki að vera hrædd við að setja málið í nefnd í miðri umræðu, gera hlé á umræðunni og leita álits helstu umsagnaraðila og þeirra sem best þekkja til á þessum tillögum og um leið gera það sem við höfum alltaf sagt að við viljum gera: greiða fyrir öðrum mikilvægum málum ríkisstjórnarinnar. Til þess erum við meira en reiðubúin.