140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Einhvern tímann í byrjun þessarar umræðu óskaði ég eftir því að hæstv. fjármálaráðherra yrði við hana vegna þess að við erum að ræða skatta. Við erum að ræða tekjur til ríkisins sem eru skattar. Og hver á að vera viðstaddur þá umræðu annar en hæstv. fjármálaráðherra? Hann er yfirmaður skatta. Ég krefst þess, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra verði við þessa umræðu en sé ekki austur á fjörðum að opna álver — álver af öllu — sem er mjög gott að mínu mati en ekki margra stjórnarliða. Ég er mjög ánægður með að það sé verið að opna álver en ég er ekki viss um að margir hv. þingmenn Vinstri grænna séu eins ánægðir með það. Ég vil að hæstv. fjármálaráðherra sé hérna og sé ekki að afla sér atkvæða á Austfjörðum og annars staðar með því að opna álver. [Hlátur í þingsal.]