140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um varnagla við fjárfestingu á landi. Þetta er flókið mál að mörgu leyti. Í dag búum við við þennan samning um Evrópska efnahagssvæðið og í gegnum hann geta erlendir aðilar keypt hér fasteignir og land. Þar af leiðandi sé ég engan mun á því hvaðan hver erlendur aðili kemur.

Ég er hins vegar og hef verið mjög efins um að selja erlendum aðilum landareignir og jörð. Ég hefði helst viljað að sem mest af þessu væri notað undir búskap eða jarðrækt af einhverju tagi. Því miður hafa íslenskir aðilar sem hafa eignast stórar jarðir eða jafnvel aðgang að náttúruperlum einmitt ekkert verið neitt betri í því að hugsa um þær eða jafnvel lokað aðgangi að slíkum svæðum. Það finnst mér ekki heldur gott. Ég held að það eigi annaðhvort að vera hægt að semja einhvers konar lagaramma eða ná samkomulagi við þessa aðila um að aðgangur að náttúruperlum sé til staðar en þá getur verið að ríkið þurfi að mæta þessum einkaaðilum með einhverjum hætti. Þeir sem hafa keypt landareignir eftir lögum á ákveðnum tíma mynda að mínu viti eignarrétt og það þarf að vera hægt að mæta því.

Ég held að við eigum að setja mikið spurningarmerki þegar kemur að því að selja einstökum aðilum eða einkafyrirtækjum stór landsvæði. Í það minnsta þarf að tryggja ákveðna hluti að mínu viti. Það þarf að tryggja aðgang að mögulegum auðlindum sem eru mikilvægar fyrir Íslendinga alla ef þær eru til staðar. Það veit ég að hefur verið gert og er hægt að gera. En eins og hv. þingmaður heyrir á þeim (Forseti hringir.) er hér stendur er þetta býsna snúið og flókið mál og eðlilegt að menn fari varlega í að festa sig einhvers staðar í þessu. En almennt finnst mér að fara eigi varlega í alla sölu á (Forseti hringir.) landi.