140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir erum mjög samstiga í þessu. Ég ætla bara að árétta að ég teldi mjög skrýtið ef Alþingi Íslendinga lyki á þessu vori umfjöllun um samgönguáætlun með atkvæðagreiðslum og eftir atvikum samþykkt samgönguáætlunar annars vegar til fjögurra ára og hins vegar til 12 ára þar sem hvergi væri minnst á Vaðlaheiðargöng og í kjölfarið afgreiddum við þetta mál sem varðar ríkisábyrgð á Vaðlaheiðargöngum.

Mér þætti það líka sérkennilegt í ljósi þess að beðið hefur verið um að Vaðlaheiðargöngin yrðu tekin inn í umfjöllun um málin sem eru á dagskrá á eftir, samgönguáætlun til fjögurra ára og samgönguáætlun til 12 ára.

Hvað sem verður um 2. umr. um þetta mál hér, sem lýkur væntanlega fljótlega, málið fer til atkvæða og til nefndar og eftir atvikum til 3. umr. þegar sá tími kemur, (Forseti hringir.) finnst mér ótímabært að taka 5. og 6. mál (Forseti hringir.) sem eru á dagskrá, samgönguáætlanir, fyrir fyrr en þingið er þá búið að hafna því (Forseti hringir.) að Vaðlaheiðargöng verði rædd í samhengi við samgönguáætlun.