140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg af og frá að þótt veiðigjaldafrumvarpi tæki einhverjum breytingum verði þetta dregið til baka vegna þess að það er engu síður gert ráð fyrir verulega auknu tekjustreymi vegna veiðigjaldafrumvarpsins og stjórnarmeirihlutinn hefur þegar lagt til breytingartillögur við það frumvarp þannig að það mun fyrirsjáanlega taka breytingum.

Mér finnst að þetta mál megi aðeins skýrast betur. Ég legg ekki til að afgreiðsla samgönguáætlunar frestist fram yfir afgreiðslu veiðigjaldamálsins en við erum kannski ekki að tala um ýkjamarga daga. Það er ekki nema sanngirniskrafa að umhverfis- og samgöngunefnd taki málið núna inn og fari um það frekari höndum áður en það kemur aftur inn til þingsins. Þetta er stórt mál og viðamikið og við erum að gera gríðarlega margar breytingartillögur. Núna eru ýmis mál að fara í gegnum þingið sem geta haft bein áhrif á þetta mál þannig að það er ekkert óeðlilegt við það að við óskum eftir því að fá að fjalla aðeins nánar um það í nefndinni.