140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Gert er ráð fyrir miklum fjármunum á næstum þremur árum vegna vegagerðar í Barðastrandarsýslu og Vestfjarðavegi 60. Vegagerðin hefur lagt fram ákveðna áætlun varðandi það. Við gerum ráð fyrir að fé renni eins og ætlast er til í þær vegaframkvæmdir. Ég tel ekki að við þurfum í tengslum við samgönguáætlunina sérstaklega að kalla eftir kostnaðaráætlun varðandi Gufudalssveitina, en það er auðvitað nokkuð sem við getum tekið hins vegar til athugunar vegna þess að við eigum náttúrlega eftir að fjalla áfram um samgöngur í landinu þó að þessi áætlun verði afgreidd hér og nú, væntanlega á morgun. En það er þá framtíðarmúsík, en að sjálfsögðu er ágætt að fara yfir það mál eins og þingmaðurinn leggur til og ekkert því til fyrirstöðu.