140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[18:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var nokkur ókyrrð eftir atkvæðagreiðsluna og því svolítið snúið að byrja hér ræðuhöld en það eru ákveðnir þættir sem mér finnst rétt að árétta varðandi þá samgönguáætlun sem hér liggur fyrir og vík ég nú bæði að fjögurra ára og 12 ára áætlun eftir því sem ástæða er til.

Í fyrsta lagi tek ég fram að markmiðið með að vinna samgönguáætlun til lengri tíma er auðvitað að hægt sé að forgangsraða verkefnum eftir einhverjum skynsamlegum forsendum, einhverjum forsendum sem sæmileg sátt er um, og til að tryggja eftir því sem verða má að faglegur og vandaður undirbúningur búi að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru á sviði samgöngumála.

Ég vildi nefna í upphafi umræðunnar að í sjálfu sér er ekki ágreiningur um mörg af þeim meginmarkmiðum sem snúa að gerð samgönguáætlunar. Ef við horfum á vegamálin sem eru kannski sá þáttur sem fær mesta athygli í umfjöllun okkar er samstaða um að markmið okkar hljóti að vera greiðar samgöngur um allt land, að það sé tryggt að byggðir landsins séu eins vel tengdar þjóðvegakerfinu og mögulegt er og að jafnframt sé umferðaröryggis gætt og hagkvæmra lausna leitað í sambandi við framkvæmdir. Allt eru þetta mjög góð og jákvæð markmið og auðvitað byggir samgönguáætlun að stórum hluta á sjónarmiðum af þessu tagi. Auðvitað koma upp álitamál, kannski þá sérstaklega forgangsröðun verkefna þegar um er að ræða takmarkað fé til framkvæmda. Við höfum á síðustu árum fundið mjög kirfilega fyrir því. Á árunum fyrir hrun bjuggum við þannig að það var unnt að auka framkvæmdir á sviði vegamála frá ári til árs. Eins og hv. þingmenn þekkja dugði það ekki til þess að allir væru alltaf glaðir en engu að síður voru miklu auðveldari aðstæður þegar úr meira fé var að spila.

Síðustu árin, frá 2008/2009, hefur verið verulega skorið niður í þessum efnum, mikla minna fé verið veitt til framkvæmda, með þeim afleiðingum að við erum enn að tala um miklu færri og smærri verk en við lögðum upp með á árum áður. Þetta er skiljanlegt. Það er hins vegar eins og ég nefndi við fyrri umr. um þetta mál alltaf álitamál hvort á að stíga jafnfast til jarðar í sambandi við framkvæmdir og gert hefur verið á síðustu árum þegar herðir svo að í ríkisrekstrinum. Ég er þeirrar skoðunar að í mjög mörgum efnum hafi verið gengið fulllangt á framkvæmdahliðinni en að menn hafi á sama tíma hlíft sér á rekstrarhliðinni. Í staðinn fyrir að taka á óhóflega miklum kostnaðarsömum rekstri víða í ríkiskerfinu held ég að menn hafi valið auðveldu leiðina sem er að fresta framkvæmdum. Ég skil það að mörgu leyti vegna þess að þar er oft um að ræða ákvarðanir sem er auðveldara að taka. Það þarf til dæmis ekki að segja upp föstu starfsfólki, það er hægt að rökstyðja það með að þessu verði frestað um eitt ár eða tvö og það komi ekki að sök þess vegna, aðeins smáfrestun, menn bíði þar til hagur batnar. Vandinn hleðst hins vegar upp þegar þetta er gert frá ári til árs.

Ég vildi líka nefna að mikið af útgjöldum til samgöngumála er ekki rekstrarkostnaður hjá ríkinu heldur fjárfesting í innviðum sem á auðvitað að skila arðsemi til lengri tíma litið ef vel tekst til.

Samgönguáætlanir undanfarinna ára og þær fjárveitingar sem hafa farið í þennan málaflokk á fjárlögum hafa endurspeglað efnahagsástandið. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að mínu mati hefur ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir í allt of mörgum tilvikum látið niðurskurðinn koma niður á framkvæmdahliðinni en veigrað sér við að taka á rekstri í ríkiskerfinu sem ég held að hefði í mörgum tilvikum verið vissulega erfiðari ákvarðanir en hefðu skilað meiri árangri til lengri tíma.

Þau verkefni sem við okkur blasa á sviði samgöngumála fara ekkert. Þær stærri framkvæmdir sem er frestað hverfa ekkert út úr heiminum. Þær verða áfram til staðar. Í mjög mörgum tilvikum þarf að ráðast í þær.

Í sambandi við viðhald og endurbætur á því kerfi sem við eigum í dag getur það að fresta viðhaldi eða endurbótum til lengri tíma verið miklu dýrara en að takast á við vandann þegar í stað. Ég hef áhyggjur af því, og veit að margir hv. þingmenn deila þeirri skoðun með mér, að þar munum við á næstu árum eiga við að stríða uppsafnaðan vanda. Viðhalds- og endurbótaverkefni hafa frestast sem gerir það að verkum að á næstu árum tel ég fyrirsjáanlegt að við þurfum að ráðast í meiri kostnað og jafnvel enn þá umfangsmeiri endurbótavinnu víða í vegakerfinu en ella hefði verið, heldur en ef hægt hefði verið að sinna viðhalds- og endurbótaverkefnum jafnt og þétt. Þetta vildi ég nefna.

Þetta eru sjónarmið sem er eins og ég segi býsna góður samhljómur um í nefndinni. Um fleiri þætti er ágætur samhljómur og ég get tekið undir margt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar í því sambandi. Þá er ég að tala um viðhaldsverkefni og umferðaröryggi, en ég er líka að tala um verkefni sem ætlunin er að bæta heldur í eins og tengivegina sem hefur verið, eins og hv. þingmenn vita, töluverður þrýstingur á að meira fé væri sett í. Hið sama má segja um verkefni á borð við það að taka á þeim stöðum á þjóðveginum þar sem eru enn einbreiðar brýr og aðrir hættulegri kaflar. Þar hefði maður kosið að sjá lengra gengið en gert er í þessari áætlun.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um röð einstakra verkefna en verð þó að geta þess eins og ég hef gert áður við umræður af þessu tagi að í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir er auðvitað hlutur höfuðborgarsvæðisins harla rýr. Það er harla rýrt sem á að fara til framkvæmda á suðvesturhorninu. Við getum sagt að auðvitað búum við hér á suðvesturhorninu að mörgu leyti við ágætar samgöngur og mun betri samgöngur en fólk víða annars staðar á landinu. Við verðum þó að horfa líka til þess að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa þó í Reykjavík og í nokkurra tuga kílómetra radíus út frá Reykjavík. Til að hv. þingmenn misskilji mig ekki tek ég fram að ég er ekki að biðja um að vegafé sé skipt eftir höfðatölu, alls ekki, það hvarflar ekki að mér. Það jafnvægi sem birtist í þessari samgönguáætlun þar sem framlög til höfuðborgarsvæðisins eru varla merkjanleg er hins vegar ekkert jafnvægi. Það er mikið ójafnvægi í þá átt. Ég hygg að það hljóti að koma til endurskoðunar á næstu árum.

Ég veit að ráðherra og stjórnarmeirihlutinn rökstyður sitt mál með að það eigi að sleppa öllum stórverkefnum á höfuðborgarsvæðinu næstu tíu árin en í staðinn verði veittir 10 milljarðar, 1 milljarður á ári, í að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Allt er það gott og vel og ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri viðleitni sem birtist í því að styrkja almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það kann að draga úr þörf fyrir stærri framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en ég held að það sé fullkomlega óraunhæft að halda að hið aukna framlag til almenningssamgangnanna muni koma í veg fyrir þörf fyrir stærri verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að játa að ég get ekki fallist á eða skrifað undir að þetta sé stefnan. Ég styð að minnsta kosti ekki að það sé skipt á stórverkefnum á höfuðborgarsvæðinu heilan áratug fram í tímann gegn því að almenningssamgöngur verði styrktar. Ef við erum að tala um krónur og aura er náttúrlega 1 milljarður á ári til verkefna af þessu tagi harla lág upphæð í samanburði við þann kostnað sem mundi hljótast af stóru samgönguverkefnunum, hvort sem við erum að tala um stærri mislæg gatnamót eða slíkar vegtengingar, ég tala nú ekki um stórverkefnið sem alltaf frestast, Sundabraut, og fleira af því taginu. Ef þetta eru einhver skipti fyrir ríkið að segjast sleppa öllum stórverkefnum í tíu ár en að í staðinn fáum við milljarð á ári í almenningssamgöngur hagnast ríkið verulega á þeim skiptum, ef svo má að orði komast.

Ég ætla ekki að staldra lengi við þetta. Ég vildi bara vekja athygli á því að við gerð samgönguáætlunar þarf að taka tillit til fjöldamargra þátta. Ég tel eðlilegt að áherslan sé á að bæta vegasamband þar sem það er slæmt, erfitt og hættulegt. Auðvitað búum við ekki við sama veruleika í þeim efnum á höfuðborgarsvæðinu ef frá er talin hættan af umferðarslysum sem auðvitað eru tíð hér líka þótt þau séu annars eðlis kannski en víða úti um landið. Eitthvert lágmarksjafnvægi verður þó að vera og það sem birtist í þessari samgönguáætlun með skiptingu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis er í mjög miklu ósamræmi við búsetu fólks. Ég vildi nefna þetta án þess að ég sé með neina tiltekna breytingartillögu um þetta atriði.

Ég segi ekki að það hafi brotist út gleði í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þegar spurðist út í vor að það kynnu að vera meiri peningar til skiptanna til að setja í samgönguverkefni en þá létti töluvert yfir þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Síðar kom í ljós að þar var um að ræða part af þeirri fjárfestingaráætlun sem kynnt var fyrir fáeinum vikum og byggir að stórum hluta á því að hér verði samþykkt frumvarp um veiðileyfagjald. Meiri hlutinn byggir breytingartillögur sínar mjög á því að þetta viðbótarfjármagn, 2,5 milljarðar á ári, fáist inn í samgönguáætlun sem auknar tekjur ríkissjóðs vegna veiðileyfagjaldsins.

Ég verð að játa að þessi forsenda gerir það að verkum að ég á líka bágt með að samþykkja breytingartillögur meiri hlutans jafnvel þó að þar sé í langflestum tilvikum um að ræða jákvæðar breytingar. Það er ekki svo að ég sé á móti því að það sé ráðist í verkefnin sem þar er um að ræða eða sé á móti því að þeim verkefnum sem þar eru nefnd verði flýtt um eitt eða fleiri ár. Allt er það afskaplega jákvætt. Ég verð samt að játa að mér finnst dálítið glannalegt að ætla að taka ákvarðanir um að úthluta peningunum með þessum hætti, í fyrsta lagi þegar fullkomin óvissa ríkir um það hvenær og hvort frumvarp hæstv. atvinnuvegaráðherra, eða sjávarútvegsráðherra er það nú í þessu tilviki, um veiðileyfagjald nái fram að ganga. Allt er nú í óvissu um það og eðlilega er óvissa um það líka í hvaða upphæðum það gjald endar. Það er enn verið að deila um forsendur þeirra útreikninga sem fram koma í frumvarpinu þannig að allt er mjög ótryggt í því.

Mér finnst glannalegt, eins og ég segi, að ætla að ráðstafa þessum peningum tíu ár fram í tímann, 2,5 milljörðum á ári, á grundvelli einhverra væntinga af þessu tagi. Ég geri mér grein fyrir því að áætlanir fram í tímann eru alltaf háðar óvissu. En þarna, hæstv. forseti, er óvissan óvenjumikil af því að lagafrumvarpið sem þessar breytingartillögur hanga á er í miklu uppnámi og ágreiningi í þinginu. Það kann að skýrast á einhverjum dögum, ég veit það ekki, en á þessari stundu er það í mikilli óvissu. Eðli veiðileyfagjaldsins er líka með þeim hætti að það er óvissa hverju það skilar jafnvel þótt frumvarpið yrði samþykkt með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Sá óvissuþáttur er enn fyrir hendi.

Síðan verð ég líka að gera athugasemdir við þau vinnubrögð að taka skattheimtu sem vitað var að ágreiningur yrði um, ekki bara á þingi heldur úti um allt þjóðfélag, og ætla að reyna að milda gagnrýnina vítt og breitt um landið með því að koma með gulrætur, eins og mér finnst hæstv. stjórnarmeirihluti vera að gera, svo sem að ef við samþykkjum veiðileyfagjaldið eru þau til í að flýta Dýrafjarðargöngum um eitt eða tvö ár. Ef við samþykkjum veiðileyfagjaldið eru þau til í að flýta Norðfjarðargöngum um eitt eða tvö ár. Þetta er að mínu mati dálítið ómerkileg pólitík, hæstv. forseti, bara svo ég segi það sem mér býr í brjósti. Það er ómerkileg pólitík að ætla að reyna að kaupa sig í gegnum vandamál á einu sviði með því að lofa einhverjum dúsum á öðrum sviðum. Mér finnst það ógeðfellt, hæstv. forseti.

Í grunninn er veiðileyfagjaldið ekki eyrnamerkt til samgöngumála, auðvitað ekki. Sumir skattar eru eyrnamerktir og hefur verið deilt um hvernig farið hefur verið með þá í framkvæmd, gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra, nefskatt til Ríkisútvarpsins o.s.frv., enda hefur ríkissjóður alltaf tilhneigingu til að seilast í þetta. Hvergi kemur fram nema í einhverjum yfirlýsingum einstakra ráðherra eða ríkisstjórnar að tilteknum parti af veiðileyfagjaldinu verði varið í samgönguverkefni. Það er svona eins og það er. Mér finnst þetta allt saman mjög skrýtið. Þetta er eins og ef maður tekur einhvern skatt, leggur hann á og segir: Ja, hér er óvinsæll skattur en ég ætla að milda áhrifin með því að segjast ætla að verja honum í alveg rosalega jákvætt og gott verkefni sem allir eru mjög hrifnir af. Þetta er ómerkilegt þegar við horfum upp á það að fjárhagur ríkissjóðs er í raun og veru ein heild. Skattar koma í ríkissjóð og þeim er úthlutað á hverju ári til einstakra verkefna og það að gefa einhver svona loforð fram í tímann og byggja breytingar á heilli samgönguáætlun á svona loftkenndum loforðum er bæði óraunhæft og (Forseti hringir.) óábyrgt að mínu mati.