140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svarið. Ég hef fylgst töluvert með umræðunni um fjármögnun Vaðlaheiðarganga og það er kannski þess vegna sem ég saknaði þess í tengslum við samgönguáætlun að það skyldi ekki vera meiri umræða um þennan þátt samgönguáætlunar, þ.e. hvernig við ætlum okkur að fjármagna öll þessi verkefni. Ég get fullyrt að það er kannski fátt sem þingmönnum finnst skemmtilegra en að geta klippt á borða við nýjan veg eða nýja brú en hins vegar er alveg ljóst af þeim gögnum sem koma hér fram að það eru alls ekki nægar tekjur til að geta staðið undir öllum þeim verkefnum sem þó koma hér fram, ég tala nú ekki um til viðbótar því sem við sjáum í breytingartillögum meiri hlutans.

Ég hefði talið nauðsynlegt að taka mun meiri umræðu um það hvernig við ætlum okkur að tryggja framtíðartekjur úr vegakerfinu. Sú umræða hefur að mínu mati farið fram fyrst og fremst fyrir utan þingsal en ekki innan þings eins og þarf að vera.

Ég get svo sem líka upplýst hér að eitt af því sem ég hef horft til þegar kemur að því að meta hvort til dæmis sé rétt að fara í Vaðlaheiðargöngin og raunar fjölda annarra framkvæmda hlýtur að vera vilji heimamanna og síðan líka vilji heimamanna til þess að taka á sig þennan kostnað. Raunar vil ég líka velta því upp sem hv. þingmaður segir um að hann vilji horfa til þess hvort það sé ríkisábyrgð eða ekki þegar um er að ræða vegaframkvæmdir. Þegar við förum í meginþorra allra þessara verkefna stendur náttúrlega ríkið að baki þeim verkefnum, ekki satt?