140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem þingmaðurinn vék að í svari sínu, hv. umhverfis- og samgöngunefnd lagði í nefndaráliti sínu gríðarlega mikla áherslu á mikilvægi viðhalds vega og gerði sérstaklega tillögu um að það gefin yrði innspýting í tengivegi landsins. Það er mjög mikilvægt að verði gert. Það eru verkefni sem nýtast um land allt, nýtast mörgum einstaklingum og öllum landshlutum. Ég vek líka athygli á þeirri áherslu sem lögð er á að fækka einbreiðum brúm sem eru allmargar, bæði í kjördæmi okkar þingmannsins og eins í norðausturhluta landsins.

Hér munar langmest um gríðarlega mikilvæga framkvæmd sem er flýting Dynjandisheiðar og Dýrafjarðarganga, ekki um einhvern tiltekinn árafjölda heldur er hún sett inn á annað framkvæmdatímabil, frá 2015–2018, og beinlínis tekið fram (Forseti hringir.) í áliti nefndarinnar að framkvæmdum skuli lokið 2018. Mér þætti gott að vita hvort þingmaðurinn er ekki kátur yfir þessu.