140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður þurfum hvorugt að rifja það upp á hverju hefur strandað í vegagerð um Gufudalssveit. Það vitum við öll. Það er margoft búið að fara yfir það úr þessum ræðustóli og okkur er það öllum ljóst.

Það er einmitt þess vegna sem ég vek máls á þessu. Eins og við vitum kom að ákveðnum þáttaskilum í þessu máli haustið 2009 þegar Hæstiréttur kvað upp sinn umdeilda dóm. Þá var málið auðvitað komið í öngstræti. Hins vegar er búið að setja það í ákveðinn farveg. Ætlunin er að kynna sem fyrst tillögur um það hvar framtíðarvegastæði eiga að vera. Við erum núna stödd á árinu 2012. Við erum að hefja framkvæmdir í gömlu Múlasveitinni. Hugmyndin var sú, eins og ég skildi það a.m.k., að þegar þeirri framkvæmd lyki lægi fyrir hvar nýja vegarstæðið í Gufudalssveit ætti að vera. Það er einmitt við þær aðstæður sem við þurfum að tryggja að fjármunir séu fyrir hendi til að ljúka þeirri framkvæmd. Mér finnst það satt að segja ekki viðunandi að við tökum um það ákvörðun 2012 að við ætlum ekki að ljúka veginum í Gufudalssveit vegna deilna í fortíðinni sem við vorum öll að reyna að leysa, að við ætlum ekki ljúka þeirri framkvæmd fyrr en árið 2022. Það er þetta sem ég vísaði einfaldlega til.

Ég hefði talið að í ljósi þess að hv. meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til verulegar upphæðir til viðbótar í samgönguáætlun frá því sem áður hafði verið að reynt yrði að hugsa til þess að færa til a.m.k. hluta af því fjármagni sem ætlunin var að setja í vegagerð í Gufudalssveit á síðasta tímabilinu, þ.e. frá 2019–2022, fram á næsta tímabil á undan þannig að menn gætu komist aðeins hraðar af stað í þessu verkefni og lokið því sem næst þessum tímabilamótum í stað þess að hafa þetta, eins og þarna er gert ráð fyrir, óbreytt frá hinni niðurskornu samgönguáætlun sem menn voru með í upphafi og setja aðaláhersluna á þennan veg á síðasta (Forseti hringir.) tímabilinu.