140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er mjög athyglisvert þegar horft er til þess að það frumvarp sem hér liggur fyrir er í rauninni viðbragð við einhverju sem Eftirlitsstofnun EFTA telur ekki samræmast reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð eða þeim þáttum sem lúta að meðferð íslenskra stjórnvalda á skattfé. Ef við fáum á sama tíma í hendur frumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að þessi sama ríkisstofnun fari í samkeppnisstarfsemi (Gripið fram í.) við frjáls félög á markaði meðan þetta félag sem er verið að búa til gengur á sömu grunnprinsippum og Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við finnst mér þetta mál, að teknu tilliti til þessara sjónarmiða sem varða sérstaklega leigufélögin, ganga í tvær áttir: Annars vegar eru einhver atriði í frumvarpinu sem koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar hafa verið og hins vegar tillögur sem ganga þvert á þær athugasemdir sem hafa verið gerðar. Mér finnst menn vera að reyna að leysa tvö mál í því eina frumvarpi sem hér liggur fyrir, annars vegar með því að bregðast við væntanlega réttmætum athugasemdum EFTA og hins vegar því ástandi sem er á íbúðamarkaði og fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóð, hræra þessu saman í eitt frumvarp sem er sett fram með þeim rökstuðningi að íslensk stjórnvöld mæti þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið og rekið á eftir þeim með í mörg ár.

Ég tek undir þau orð sem hv. þingmaður hefur haft um að væntanlega hefði mátt ígrunda þetta mál örlítið betur.