140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar í örfáum orðum að spyrja þingmanninn aðeins út í framtíð Íbúðalánasjóðs og hvernig hv. þingmaður sér framtíð sjóðsins.

Hv. þingmanni hefur verið tíðrætt um að ýmsir sjálfstæðismenn vilji leggja sjóðinn niður. Ég tel einfaldlega tímabært að við tökum umræðuna um hvernig við ætlum að hafa þessi mál til framtíðar. Ætlum við að vera með félagslegan sjóð sem aðstoðar þá sem af einhverjum félagslegum ástæðum passa ekki inn í hið almenna bankakerfi og lánastarfsemina þar og þá sé sá sjóður undir yfirstjórn velferðarráðherra? Eða ætlum við að hafa fyrirkomulagið eins og það er í dag, að Íbúðalánasjóður sé á almennum lánamarkaði í samkeppni við þær fjármálastofnanir sem þar starfa og undir yfirstjórn efnahags- og viðskiptaráðherra eins og hver önnur fjármálastofnun? Hvort er það? Og er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að okkur beri að fara að taka þá umræðu?

Það er auðvitað svo og við sjáum það meðal annars af lestri rannsóknarskýrslu Alþingis að spurningum hefur verið velt upp um það hversu mikil áhrif sjóðurinn og þeir fjármunir sem fóru í gegnum hann hafi haft á íslenskt fjármálakerfi í aðdraganda hrunsins og hefur í raun enn í dag. Þeir eftirlitsaðilar sem hafa verið að benda okkur á ýmis atriði sem betur mættu fara hafa flestallir talað um þessa stöðu Íbúðalánasjóðs og varpað fram þeim spurningum hvort ríkisaðstoðin sé ekki of fyrirferðarmikil á þeim markaði. Eru þetta ekki athugasemdir sem við eigum að hlusta á og bregðast við í staðinn fyrir að vera hér með einhverjar lágmarkstilfærslur til þess að friða Eftirlitsstofnun EFTA væntanlega til mjög skamms tíma?