140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál. Í megindráttum er með þessu frumvarpi verið að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA eða ESA, og jafnframt víkka út hlutverk sjóðsins að einhverju leyti, ef ég hef skilið þetta rétt, með því að fara út í leigubransann. Það kann í sjálfu sér að vera skynsamleg leið að sjóðurinn fái til þess heimildir sem þarf á að halda, en að sama skapi má ekki leggja út í þann leiðangur að mínu viti að breyta starfsemi sjóðsins það mikið að hann missi marks eða hlutverk hans verði þynnt út þannig að sjóðurinn muni eiga í erfiðleikum með að sinna hlutverki sínu; að lána fjármuni á markaði til húsnæðiskaupa og húsbygginga.

Eins og komið hefur fram í ræðum í dag var Íbúðalánasjóður stofnaður árið 1999 af þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni sem beitti sér mjög ákaft fyrir því að hverfa frá því gjaldþrota kerfi sem Alþýðuflokkurinn sálugi og síðan Samfylking höfðu komið á fót. Það kerfi var löngu komið í þrot og nauðsynlegt að bregðast við.

Íbúðalánasjóður hefur sinnt hlutverki sínu vel að mínu viti, stuðlað að aukinni samkeppni á þessum markaði, auk þess sem sjóðurinn hefur komið inn í með lánveitingar til byggðarlaga þar sem hinn frjálsi markaður taldi sig ekki hafa forsendur til þess að starfa á. Víða úti á landsbyggðinni var eini möguleikinn að fá lán hjá Íbúðalánasjóði, gjarnan í samvinnu við og í gegnum sparisjóðakerfið sem núverandi ríkisstjórn hefur mistekist að standa vörð um.

Hér er í fyrsta lagi um að ræða breytingu þar sem verið er að bregðast við athugasemdum eftirlitsstofnunarinnar og síðan er lagt til að Íbúðalánasjóður fái heimild til þess að eiga og reka leigufélag. Í nefndaráliti frá minni hluta velferðarnefndar, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir skrifar undir, er ágætlega farið í gegnum markmið þessara laga og mjög greinilega gerð grein fyrir því hvað beri að varast með stærra hlutverki sjóðsins, þ.e. að reka leigufélag til þess að leigja út þær íbúðir sem sjóðurinn á.

Með nefndaráliti sínu leggur hv. þingmaður til ákveðna breytingu. Þar er líka lögð áhersla á að leiguhlutinn verði aðskilinn frá öðrum rekstri sjóðsins. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt. Í nefndarálitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að mikil þróun er á húsnæðismarkaðnum þar sem bankarnir hafa í auknum mæli verið að koma aftur inn á hann. Í því ljósi hvetur minni hlutinn til þess að sett verði almenn lög um alla sem veita lán til fasteignakaupa, í stað þess að einblínt verði á að setja sjóðnum strangari skilyrði líkt og gerðist í aðdraganda bankahrunsins.

Minni hlutinn leggur á það mikla áherslu að leigufélag það sem lagt er til að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að reka og eiga, verði algerlega aðskilið frá þeirri starfsemi sjóðsins sem lýtur að lánveitingum.“

Það er rétt hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur sem leggur þetta nefndarálit fram að veruleg hætta er á hagsmunaárekstrum þegar svona er í pottinn brotið. Því er mikilvægt að kveða á um þann aðskilnað sem um ræðir í frumvarpinu með skýrum hætti.

Hér hefur töluvert verið rætt um það, í umræðum um húsnæðismál, hvernig ríkisstjórninni mistókst og hvernig hún brást algerlega heimilum landsins þegar hún endurreisti bankakerfið. Í stað þess að láta heimili og rekstrarfyrirtæki hugsanlega njóta þess fjárhagslega svigrúms sem varð til við stofnun nýju bankanna, voru það erlendir kröfuhafar sem nutu þess. Við lögðum mörg hver þunga áherslu á að svigrúmið yrði nýtt á annan hátt, að heimilin fengju að njóta þess með leiðréttingu á lánum sínum þar sem mörg heimili sem voru með íslensk verðtryggð lán höfðu ekki fengið neina leiðréttingu. Þau hafa í raun enn ekki fengið hana, það er ekki búið að lagfæra þetta eða gera upp.

Við í þingflokki framsóknarmanna höfum lagt fram frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Er þar verið að reyna að berja í brestina að einhverju leyti. Þar er meðal annars lagt til að setja hámark á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli, er þá verið að horfa á neytendalán fyrst og fremst. Það er einnig lagt til í því máli sem við leggjum fram að reynt verði að koma böndum á svokallaðan verðtryggingarjöfnuð því það er óeðlilegt að fjármálastofnanir hafi hag af því að verðbólga aukist á hverjum tíma, þ.e. að þegar verðbólgan eykst aukist hagnaður þeirra eða afgangur af verðtryggðum lánum. Þetta er eitthvað sem þarf að koma böndum á að okkar mati.

Í þessu frumvarpi er einnig rætt um að óheimilt verði að hækka gjöld og tekjur ríkissjóðs á grunni almennrar verðlagsþróunar. Þarna er að sjálfsögðu verið að reyna að milda áhrif af verðbreytingum og verðbólgu á lán heimilanna.

Þetta er tillaga sem við höfum reynt að koma í gegnum þingið en ekki hefur verið áhugi hjá ríkisstjórnarflokkunum að taka þetta mál upp. Það er leikur einn fyrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka að gera þetta, ég tala nú ekki um hæstv. forsætisráðherra sem talað hefur manna mest um að afnema beri verðtryggingu á Íslandi, búin að hafa núna á fjórða ár til þess að gera það en hefur hvorki hreyft legg né lið til þess að koma því áfram. Hér er frumvarp þar sem í það minnsta er farið af stað í þá vegferð og reynt að setja þak á verðtrygginguna, en það nær ekki heldur eyrum þeirra sem stjórna landinu, sem er mjög sorglegt.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur líka lagt fram athyglisverða tillögu á þinginu sem lýtur að því að veita Íbúðalánasjóði svigrúm til að fara svokallaða landsbankaleið, þ.e. að færa niður veðkröfur og að endurgreiða hluta af þeim vöxtum sem einstaklingar hafa greitt. Það er annað gott mál og gott dæmi um það að menn eru að reyna að hafa vit fyrir þeim sem stýra landinu og koma með tillögur sem hægt er að hrinda í framkvæmd og geta nýst fólkinu sem skuldar Íbúðalánasjóði. Hv. þingmaður rökstyður tillögu sína ágætlega í langri og ítarlegri greinargerð. Ég fæ ekki betur séð en að minnsta kosti tveir hv. þingmenn hafi tekið undir það að fara þessa leið, en hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason og hv. þm. Helgi Hjörvar hafa tekið undir slíkar hugmyndir.

Það virðist vera þannig, frú forseti, að þegar ræða á einhverjar raunverulegar aðgerðir fyrir heimilin í landinu stranda málin á toppnum, hjá ríkisstjórninni, þar stoppa málin. Það virðist vera sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar beiti sér mjög hart gegn því að þessi mál nái fram að ganga. Við þekkjum það sum hver að hafa setið fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og reynt að tala fyrir málum sem þessum án þess að nokkuð hafi gengið. Við höfum lagt fram minnisblöð eða þingsályktunartillögur á slíkum fundum sem ekki hafa fengið neinn hljómgrunn, því miður. Þar af leiðandi erum við stödd á sama stað með stóran hluta af heimilum landsmanna.

Íbúðalánasjóður þarf að fá heimildir til þess að geta brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin hjá lántakendum hjá sjóðnum. Íbúðalánasjóður þarf að sjálfsögðu að hafa sterkan grundvöll og rekstrargrunn til þess að geta starfað áfram á þessum markaði. Það er í það minnsta skoðun þess er hér stendur að það sé mjög mikilvægt að styrkja og efla Íbúðalánasjóð eins og hægt er sem lánveitanda í húsnæðismálum, hvort sem er til einstaklinga eða félaga og að gera sjóðnum kleift með skilvirkum hætti, í aðskildri starfsemi, að reka leigufélag um þær eignir sem sjóðurinn hefur þurft að leysa til sín.

Ég hef ekki séð nein rök fyrir því eða í það minnsta ekki séð leiðir sem teikna upp þá veröld að fjármálastofnanir, einkaaðilar á markaði — notum bara bankana sem viðmiðun — muni sinna því hlutverki sem Íbúðalánasjóður sinnir í dag, og sinna því út um allt land. Reynslan kennir okkur það, það eru engar bábiljur eða ímyndanir að baki þessari fullyrðingu minni heldur einfaldlega reynslan. Hún er ekki endilega ný af nálinni þótt til séu ný dæmi um að einstaklingar hafa farið í gegnum allt bixið og talið sig vera komna með loforð fyrir láni til framkvæmda, en þegar viðkomandi starfsmaður fjármálastofnunarinnar áttar sig á því hvar staðsetning hússins er í raun og veru, er allt dregið til baka. Við þekkjum það frá fyrri tíð að við sem bjuggum fjær bólgunni á höfuðborgarsvæðinu áttum mjög erfitt með að fá lán frá þessum aðilum, einkafyrirtækjum, til framkvæmda. [Kliður í þingsal.]

Ég held því að hlutverk og mikilvægi Íbúðalánasjóðs hafi komið betur í ljós undanfarin missiri en margir hafi gert sér grein fyrir. Ég held að það verði að tryggja að sjóðurinn verði til staðar fyrir þau svæði sem hinn frjálsi markaður vill ekki sinna.

Það að breyta húsnæðislánakerfinu yfir í Íbúðalánasjóð var gott framtak hjá þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni á sínum tíma. Þetta var þarft framtak þar sem horft var til framtíðar. Það er eins með Íbúðalánasjóð og allar aðrar stofnanir að þær kunna að þurfa að aðlaga sig tíðarandanum og breytingum, það þarf að skoða á hverjum tíma, en það eru ekki að mínu viti neinar forsendur til að gera grundvallarbreytingar á hlutverki og eðli þessarar stofnunar.

Það sem löggjafinn þarf að gera er að sjálfsögðu að tryggja að umgjörðin sé þannig að sjóðurinn geti starfað. Ég hugsa að liður í því sé að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu, þ.e. að gefa sjóðnum heimild til að stofna leigufélag sem sýslar með þessar íbúðir í sérfélagi. Ég held líka að sjóðurinn eigi að fá þær heimildir sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson leggur til til að geta farið svokallaða landsbankaleið.

Ég held að við eigum að sameinast um það að þessi ágæta stofnun sem hefur sinnt Íslendingum um langa tíð í ýmsu formi fái áfram að starfa, því ég held að þegar fram líða stundir muni hlutverk hennar og mikilvægi verða jafnvel enn meira en er í dag. Þegar framkvæmdahugurinn fer að glæðast — og við skulum vona að Íslendingar fari nú að framkvæma á ný — þá er mikilvægt að til staðar sé apparat sem tryggi að sem flestir einstaklingar hafi aðgang að lánsfé. Það er ekki mikið jafnræði í því að hinn frjálsi markaður skuli skipta landinu niður í góð og slæm svæði og við það eigi landsmenn að búa þegjandi og hljóðalaust.