140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf að bregðast við þessum athugasemdum. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvort viðbrögðin séu þau einu réttu eða hvort fara hefði átt aðrar leiðir. Það er hins vegar verið að bregðast við að einhverju leyti.

Það er rétt að í frumvarpinu er í raun ekki tekið með neinum hætti á málum skuldara hjá Íbúðalánasjóði sem eru langflestir þeir sem eiga íbúðalán í dag, né reynt að leiðrétta þau eftir efnahagshrunið.

Því er ágætt að rifja það upp að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum kallað allt þetta kjörtímabil, alveg frá hruni, eftir aðgerðum frá ríkisstjórninni í þágu þessara heimila. Þau köll hafa ekki náð eyrum stjórnvalda enn þá, því miður. Íbúðalánasjóður er að sjálfsögðu sú stofnun sem mestu skiptir í þessu máli hjá ríkisvaldinu þar sem lánin eru. En á þetta hefur ekki verið hlustað, frú forseti. Því er ósköp eðlilegt að við ræðum tillögur og mál eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur lagt fram, þar sem leitast er við að veita Íbúðalánasjóði tæki og tól til þess að taka á málum skuldara sinna.

Ég hefði talið, frú forseti, að strax hefði átt að fara þá leið sem lögð var til í upphafi þessa kjörtímabils um að fara í almenna leiðréttingu lána og ríkissjóður, bankarnir og lífeyrissjóðirnir hefðu átt að taka þátt í því. Hefði það verið gert á þeim tímapunkti hefði þetta ekki verið jafnmikið álitaefni eða jafnflókið og það er í dag.