140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eftir gríðarlega mikinn undirbúning fólks á Norðurlandi, sveitarfélaga og atvinnulífs og alþingismanna erum við komin á þann stað að greiða atkvæði um það hvort ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga sem munu efla og styrkja atvinnusvæði í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Það er með mikilli gleði sem ég greiði þessari framkvæmd atkvæði mitt. Þetta er framkvæmd sem mun auka tekjur ríkissjóðs, framkvæmd sem verður greidd með veggjöldum af þeim sem munu nýta sér þessa samgöngubót.

Þetta mun líka stuðla að því að við munum geta nýtt tækifæri í Þingeyjarsýslum þar sem miklar orkuauðlindir eru og það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar að hrinda þeim áformum í framkvæmd. Þetta mál er dæmi um það hvernig við getum náð árangri með samvinnu og samstarfi þvert á flokka, í sveitarstjórnum og á Alþingi. (Forseti hringir.) Það er með mikilli ánægju sem ég mun styðja framgang þessa verkefnis.