140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

útlendingar.

709. mál
[14:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Um leið og ég mæli fyrir þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, leyfi ég mér að vísa í athugasemdir sem birtar eru með frumvarpinu þar sem segir meðal annars:

„Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Tilefni þess eru ábendingar og athugasemdir tiltekinna aðila sem þykja kalla á breytingar á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum. Meginefni frumvarpsins eru í fyrsta lagi heimild til þess að gera samninga við erlend ríki þar sem þeim er veitt heimild til þess að synja um útgáfu vegabréfsáritunar fyrir Íslands hönd. Í öðru lagi er í frumvarpinu opnað fyrir heimild ráðuneytisins til þess að greiða fyrir réttaraðstoð við hælisleitendur frá fyrstu stigum málsmeðferðar þeirra fyrir íslenskum stjórnvöldum. Þá eru með frumvarpinu lagðar til breytingar er lúta að innleiðingu tilskipunar 2004/38/EB um frjálsa för.“

Að öðru leyti, hæstv. forseti, vísa ég í athugasemdir sem fylgja þessu frumvarpi og óska eftir því að það gangi til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.