140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa komið hingað upp á undan, fyrst með Lilju Mósesdóttur sem hvatti til þess að mál sem tengjast skuldastöðu heimilanna og öðrum brýnum efnahagsmálum verði tekin á dagskrá. Því miður hefur tími þingsins farið í aðra hluti og ég hvet hæstv. forseta til að stuðla að því að þau mál komist á dagskrá þingsins, ekki veitir af. Ég tek einnig undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það er nauðsynlegt að ná betri festu um þinglokin þannig að við hv. þingmenn gerum okkur grein fyrir því hvaða mál eigi að klára á næstu dögum. Það er brýnt að klára mjög mörg mál þannig að ég hvet frú forseta til dáða. Ég veit að hæstv. forseti hefur unnið mjög mikið og markvisst að því að reyna að ná niðurstöðu um þinglokin og hæstv. forseti á stuðning í þeim sem hér stendur til að klára það mál.