140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem áfanga á þeirri leið að styðja við samkeppnisstöðu sparisjóðanna og skapa möguleika fyrir fjölbreytni í samkeppni á fjármálamarkaði á Íslandi. Það er ekki víst að þetta eitt og sér dugi til þess að fjölga sparisjóðum eða gera þá sem fyrir eru lífvænlegri. En þetta er ein leið til að auðvelda fjárfestum í heimabyggð að taka þátt í fjármögnun sparisjóða sinna og uppbyggingu þeirra. Við eigum mikið undir því að fjármálakerfið sé ekki bara byggt á þremur jafnstórum einsleitum bönkum sem allir halda atvinnulífi og heimilum í heljargreipum skulda heldur þvert á móti að samkeppnisumhverfið á fjármálamarkaði sé fjölbreytt. Þetta eitt og sér er liður í því en það leysir ekki eitt allan þann vanda. Það er til dæmis algjört grundvallaratriði ef sparisjóðir eiga að geta keppt við stóru bankana að þeir hafi aðgang að heildsölufjármögnun íbúðalána. Það hlýtur að vera næsta skref okkar að skapa umgjörð (Forseti hringir.) svo Íbúðalánasjóður geti endurfjármagnað íbúðalán sparisjóða í gegnum heildsölukerfi þannig að þeir eigi þar líka samkeppnismöguleika við (Forseti hringir.) hinar stærri fjármálastofnanir.