140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:02]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að bæta við nokkrum orðum í framhaldi af því sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi um 3. gr. og verksvið, þá annars vegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hins vegar fjárlaganefndar, um þær skýrslur sem koma frá Ríkisendurskoðun. Það hefur reynt á þetta á þeim vetri sem nú er liðinn. Skýrslur sem koma frá Ríkisendurskoðun skipta tugum á hverjum vetri og þar er mikið verk unnið. Vandinn sem hefur verið uppi, a.m.k. að mínu mati, er sá að þessar skýrslur hafa ekki fengið þinglega meðferð. Ég tel mjög brýnt að verk og úttektir þeirra eftirlitsstofnana sem starfa undir þinginu fái þinglega meðferð. Þó að þetta hafi tekið drjúgan tíma af störfum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tel ég að þeim tíma hafi verið vel varið. Vandinn er hins vegar sá að á okkar borð í þeirri nefnd hafa komið einstakar skýrslur sem við höfum talið rétt að fengju fyllri og ítarlegri meðferð og frekari umræðu í öðrum nefndum, svo sem fjárlaganefnd. Ég skildi orð þingmannsins á þann veg að hann teldi að það væri ástæðulaust að taka efnislega fyrir allar þessar skýrslur heldur ætti bara að liggja fyrir eitthvert yfirlit um hvað væri uppi á borðum hjá Ríkisendurskoðun og að menn hefðu sýn á það. Ef svo er ekki heldur hafi hann aðrar meiningar náði ég ekki alveg hugsun hans um það hvernig á að sortera fyrir fram hvaða skýrslur ættu að fara undir fjárlaganefnd, hvaða skýrslur undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hvaða skýrslur þá jafnvel undir einhverjar aðrar nefndir.