140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

loftslagsmál.

751. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Málið sem hér liggur fyrir er meðal þeirra mála sem komu inn á þingið á síðasta mögulega framlagningardegi, 31. mars, ef ég man rétt. Það er afskaplega viðamikið og þrátt fyrir að nefndarálit það sem hv. þm. Þuríður Backman mælti fyrir sé afar ítarlegt og vandað verður samt að segja að málið fékk ekki þá umfjöllun í nefndinni sem nauðsynleg hefði verið ef horft er til þess hve viðamikil löggjöf er hér á ferðinni og hvað mikið er undir.

Ég styð það að Ísland verði þátttakandi í því viðskiptakerfi sem hér er fjallað um, viðskiptakerfi Evrópusambandsins með loftslagsheimildir. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé hagfellt fyrir íslenskt atvinnulíf að vera þátttakandi í þessu kerfi og þess vegna styð ég meginmarkmið frumvarpsins.

Vandinn er hins vegar sá að komið hafa fram fjöldamargar athugasemdir við útfærsluna eins og þær birtast í frumvarpinu, meðal annars frá heildarsamtökum í atvinnulífinu og frá einstökum hópum, eins og nefnt hefur verið, þeim sem starfa að skógrækt og fleiri slíkum aðilum. En vegna þeirrar tímapressu sem málið er í hefur ekki verið hægt að koma til móts við athugasemdirnar með þeim hætti sem nauðsynlegt hefði verið eða ekki verið tækifæri til að fara jafndjúpt í einstaka þætti og vert hefði verið. Það gerir það að verkum að þegar málið kemur til umræðu á síðasta degi þingsins bærast blendnar tilfinningar í brjósti manns þegar maður þarf að taka afstöðu til þess.

Í raun og veru er stefnt að breytingu sem er jákvæð og til góðs en útfærslan hefði mátt vera betri og hefði þurft að vera betri. Ég tók þá afstöðu innan nefndarinnar fyrr í þessari viku að leggjast ekki gegn því að málið kæmi á dagskrá og yrði tekið til efnislegrar afgreiðslu. Ég mun ekkert gera til að tefja fyrir málinu en á hinn bóginn valda þessir þættir því að mér er ómögulegt að styðja það. Ég nefni bara ítarlega og vandaða umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og ýmsum aðildarsamtökum þar sem eru tilgreindar að minnsta kosti tíu afmarkaðar og útfærðar breytingartillögur. Segja má að komið sé til móts við eina þeirra í breytingartillögum eða nefndaráliti meiri hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd.

Sama má segja um önnur atriði sem hafa auðvitað verið rædd, eins og staða steinullarverksmiðjunnar, staða skógarbænda og annað þar sem ég hef ríka samúð með þeim sem gera athugasemdir, en vegna aðstæðna og tímapressu sem er á þessu máli, einkum í ljósi þess að við erum að ljúka þingstörfum og komum ekki saman aftur fyrr en í september, er tíminn nokkuð knappur, sérstaklega þegar horft er til þess að ákveðið ferli þarf að eiga sér stað, bæði á vettvangi EFTA og Evrópusambandsins, áður en kerfið getur komist í gagnið, en það á að gerast 1. janúar á næsta ári. Þess vegna hef ég tekið þann kost að leggjast ekki gegn því að málið fái afgreiðslu á þessu þingi og á þessum þingdegi en ég get því miður ekki stutt það þó að ég sé samþykkur þeirri meginstefnu sem þar birtist um aðild okkar að viðskiptakerfinu.

Ég ætla að láta þessi orð nægja við þessa umræðu, hæstv. forseti. Ég hefði vissulega kosið að aðdragandi þessa máls væri með öðrum hætti og ég hefði kosið að útfærslan væri þannig að ég geti stutt hana en í ljósi þess að það eru miklir hagsmunir fyrir Ísland og fyrir íslenskt atvinnulíf að komast inn í þetta kerfi í tæka tíð vonast ég til þess að málið fái afgreiðslu á þingi.