140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

loftslagsmál.

751. mál
[18:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá er bara að þakka hv. þingmanni fyrir að leggjast ekki gegn málinu, það er auðvitað ákveðið framlag. Hitt er rétt hjá honum að fyrstu skref okkar í hinni nýju, evrópsku samvinnu eru svolítið reikul og hljóta að verða það. Ég tel, eins og hv. þingmaður, að þetta leysi ýmsan vanda sem við höfum lent í en setur okkur hins vegar þær skyldur að við verðum að skyggnast um áður en við göngum um þessar gáttir. Það hefur greinilega ekki verið gert í málefnum steinullarverksmiðjunnar. Þar hafa verið gerð mistök einhvers staðar fyrr í ferlinu en nefndin hefur verið nógu kurteis til að vera ekki að leita sérstaklega að sökudólgi vegna þess.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið, ég vil bara segja að svar hv. þingmanns staðfestir að nefndin gerði eins og hún gat, hún vann verkið eins vel og hægt var. Ég þakka framsögumanni og öðrum nefndarmönnum fyrir ágætt starf að þessu máli þó að vissulega væri unnið í nokkru kapphlaupi við tímann eins og aðstæður voru í þessu efni. Ég þakka hv. þingmanni líka fyrir sinn hlut þar því að hann lagði einungis gott til málanna.