140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

15. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Í þeirri tillögu sem lögð var fram er gert ráð fyrir að Alþingi álykti að innanríkisráðherra skipi nefnd hagsmunaaðila til að fjalla um fjögur atriði:

1. Að skilgreina öryggisstig á Íslandi.

2. Að skilgreina þjónustustig lögreglu.

3. Að skilgreina mannaflaþörf lögreglu.

4. Að skilgreina þörf lögreglunnar fyrir fjármagn.

Nefndin fékk á sinn fund nokkra gesti, þar á meðal fulltrúa frá Landssambandi lögreglumanna, þá Snorra Magnússon og Steinar Adolfsson, Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og Guðmund Guðjónsson frá embætti ríkislögreglustjóra. Síðan bárust nefndinni nokkrar umsagnir. Í umsögnunum öllum var lýst yfir stuðningi við tillöguna og þar var bent á að grunnur fjárveitinga til lögreglu væri áratugagamall og að hann þyrfti að endurskoða. Það þyrfti líka að skoða hvað varðar öryggi íbúa á einangruðum stöðum og bent var á mikilvægi þess að þegar skipað yrði í nefndina yrði valið fólk sem hefði bæði þekkingu og reynslu.

Nefndin horfði til Norðmanna sem fóru í algjöra endurskoðun á starfsemi lögreglunnar með tilliti til framtíðar og hvernig þeir gætu innan fimm eða tíu ára mætt málum sem sneru að lögreglunni og var lögð fyrir nefndina skýrsla norska dóms- og lögreglumálaráðuneytisins. Verður vonandi horft til þeirrar skýrslu í þeirri nefnd sem lagt er til að skipuð verði.

Breytingartillaga með þessu nefndaráliti hljóðar svo, með leyfi forseta:

„a. 1. mgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd níu fulltrúa sem fjalli um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og geri löggæsluáætlun fyrir Ísland. Þeir þingflokkar sem eiga sæti á Alþingi tilnefni hver sinn fulltrúa, Landssamband lögreglumanna tilnefni einn fulltrúa, ríkislögreglustjóri tilnefni einn fulltrúa og innanríkisráðherra tilnefni tvo fulltrúa og verði annar þeirra formaður nefndarinnar.

b. 4. mgr. orðist svo.

Ráðherra leggi tillögu til þingsályktunar um löggæsluáætlun fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2013.“

Undir þetta nefndarálit skrifa formaður nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, svo og Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Birgitta Jónsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og sú sem hér stendur. Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Virðulegur forseti. Þetta er þörf tillaga. Hún er (Utanrrh.: Hún er dýr.) lögð fram af þingmönnum úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Hæstv. utanríkisráðherra kallar hér fram í að hún sé dýr. Öryggi Íslendinga má kosta, hæstv. utanríkisráðherra.