140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[18:23]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ásamt tveimur öðrum þingmönnum hef ég mælt fyrir breytingartillögu við þetta frumvarp en þannig háttar til að með lögum nr. 151/2010 sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi í desember 2010 var mælt fyrir um heimild til endurupptöku gjaldþrotaúrskurða, nauðungaruppboða og aðfara vegna gengistryggðra lána sem höfðu verið dæmd ólögmæt. Sú lagasetning reyndist gölluð og náði aldrei að virka eftir dóma og úrskurði sem féllu eftir setningu þeirra, síðast í ársbyrjun ársins 2012. Þessari breytingartillögu er ætlað að bæta þar úr eins og ætla má að hægt sé til að fylgja megi eftir þeim réttindum sem lögunum frá 2010 var ætlað að tryggja. Breytingartillagan er þó mun takmarkaðri en ákvæðin frá 2010 þar sem einungis er fjallað um nauðungaruppboð og gjaldþrot og hún gildir aðeins um íbúðarhúsnæði til eigin nota sem enn er í eigu uppboðskaupenda sem ekki eru lögaðilar og eru jafnframt þessar eignir í eigu uppboðskaupenda.

Efnahags- og viðskiptanefnd taldi tillöguna ekki hafa hlotið nauðsynlega umfjöllun og vísaði þar til óformlegrar umsagnar réttarfarsnefndar. (Forseti hringir.) Það er rétt, en ég tel mikilvægt, herra forseti, að Alþingi standi við þau (Forseti hringir.) fyrirheit sem það gaf í desember 2010 og legg því til að breytingartillagan verði samþykkt.