141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það er ekki innstæða fyrir sjálfshóli forustumanna ríkisstjórnarinnar enda er atvinnumálaráðherrann í litlu jafnvægi að týnast í umræðu um Sjálfstæðisflokkinn og hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru búnir að finna sér nýjan leiðtoga, Barack Obama. Guð láti gott á vita.

Forsætisráðherrann talar um árangur í atvinnumálum. Ekkert er fjær lagi. Hver sem hefur aðgang að alnetinu getur farið á vef Hagstofunnar og séð að störfum hefur fækkað milli mánaða á þessu ári og fækkað frá sama tíma í fyrra. Skýringin á minna atvinnuleysi liggur í því að fólk hefur farið af vinnumarkaði og hefur til dæmis leitað fyrir sér í útlöndum. Beinn kostnaður vegna atvinnuleysis er gríðarlegur og samsvarar í það minnsta 95 milljörðum á kjörtímabilinu. Og hvað er hægt að gera við þá fjármuni, virðulegi forseti? Við gætum til dæmis byggt nýjan spítala, við gætum keypt í hann ný tæki, við gætum greitt árlegan kostnað við ellilífeyri, örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, barnalífeyri og brýna sjúkrameðferð erlendis.

Á einu ári eru framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð, tapaðar skatttekjur vegna brottfluttra og atvinnulausra nær 50 milljarðar kr., þ.e. yfir 40% af tekjuskatti einstaklinga.

Forsætisráðherra hreykir sér af árangri í skuldamálum heimilanna á sama tíma og yfirdráttarlán heimilanna eru hærri en nokkru sinni fyrr í sögu íslenskrar þjóðar. Forsætisráðherra bætir um betur og segir að skuldir heimilanna hafi orðið til fyrir bankahrun. Þrátt fyrir að forsætisráðherra sé ekki alltaf nákvæmur er það rétt að fólk sem tók til sín lán á árinu 2008 er í langmestum erfiðleikum. Hver lánaði nú til húsnæðiskaupa árið 2008? Það var einn aðili sem lánaði það ár og setti met í útlánum. Hvaða banki skyldi það nú hafa verið? Jú, það var Íbúðalánasjóður. Ráðherrann sem fór með þann sjóð, þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hreykti sér af því í fjölmiðlum að hafa náð að auka lán úr sjóðnum. Það fólk sem tók Jóhönnulánin í góðri trú árið 2008 er ekki í góðri stöðu í dag.

Um leið talar forsætisráðherrann um að þjóðin sé bjartsýn. Það er alveg rétt, þjóðinni er að aukast bjartsýni vegna þess að það eru kosningar í vor. En hvað er til ráða, hvernig getum við aukið verðmætin hér á landi? Það er gert með því að treysta fólki, gefa Íslendingum tækifæri til að nýta þau tækifæri sem þetta land hefur upp á að bjóða. Það viðhorf núverandi valdhafa að atvinnulífið sé óvinur kemur beint niður á fólkinu í landinu. Þvert á það sem margir halda eru yfir 90% fyrirtækja í landinu lítil og meðalstór og öll fyrirtæki hafa einhvern tímann verið lítil. Skattpíning einstaklinga og fyrirtækja kemur beint niður á vaxtarbroddum í þjóðfélaginu. Við þekkjum viðhorf vinstri manna til sjávarútvegs, óvissan og skattgleðin í þeim málaflokki kemur langverst niður á smærri fyrirtækjum í greininni og þeim sem þjónusta hana sem og sjómönnum og landverkafólki.

Stöðvun framkvæmda í umhverfisvænum orkuiðnaði kemur niður á fjölda fyrirtækja, t.d. í bygginga- og tæknigeiranum, og hefur ýtt undir landflótta tækni- og iðnaðarmanna. Og nú skal stíga á þann vaxtarbrodd sem hefur séð fjölda Íslendinga farborða um allt land, sjálfa ferðaþjónustuna. Án nokkurs fyrirvara á að hækka skatta á þá grein með slíkri hörku að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur að það gæti þýtt fækkun ferðamanna um 48 þús. manns. Slík fækkun þýddi tekjuskerðingu um 11 milljarða kr. Fækkun ferðamanna þýðir að færri Íslendingar geta starfað við þessa grein, fækkun ferðamanna þýðir gjaldþrot lítilla fyrirtækja. Flóknara er málið ekki.

Góðir Íslendingar. Við verðum að hlúa að fólkinu í landinu, við verðum að hlúa að atvinnulífinu. Við gerum það með því að einfalda skattkerfið, lækka skatta og taka af alvöru á skuldavanda heimilanna. Við verðum að gefa fólki frelsið til athafna. Það mun skila sér í bættum lífskjörum fyrir alla. — Góðar stundir.