141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru margar ástæður til að fagna fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Okkur hefur tekist ætlunarverkið. Ríkisfjármálin stefna í jafnvægi eftir dýpstu kreppu sem orðið hefur á lýðveldistímanum og dýpri kreppu en aðrar þjóðir eru nú að glíma við.

Strax í júní 2009 var tekin sú ákvörðun, til að lækka fjárlagahallann, gat upp á fleiri tugi ef ekki hundruð milljarða, að fara blandaða leið tekjuöflunar og niðurskurðar, leið sem hefur leitt Ísland út úr hruninu. Íslenska leiðin varð til.

Tekið var upp þrepaskipt skattkerfi sem hlífir þeim sem lægst hafa launin en hækkar skatta og gjöld á þá sem meira hafa og lögð var áhersla á að verja störfin, lækka hæstu laun í opinbera geiranum og minnka fremur starfshlutfall en segja upp fólki. Grunnþjónustunni hefur verið hlíft sérstaklega í niðurskurðinum, heilbrigðisþjónustan hefur á þessum fjórum árum fengið 50% minni hagræðingarkröfu en önnur þjónusta á vegum ríkisins. Það er rétt að rifja það upp hér.

Nú er svo komið að þegar gerð er almenn hagræðingarkrafa upp á 1,75% í ríkisrekstrinum er krafan á heilbrigðisþjónustuna núll. Ég fagna því sérstaklega og einkum því að við höfum náð hingað án fjöldauppsagna, án þess að ríkið hafi hækkað komugjöld í heilbrigðisþjónustunni og án þess ríkið hafi innheimt spítalaskattinn illræmda sem enn er þó heimild fyrir í lögum og verður fram til 1. október næstkomandi. Þetta er íslenska leiðin, þveröfug við þá leið sem nú er farin í Suður-Evrópu og víðar. Tekist hefur að verja grunninn í heilbrigðisþjónustunni, innviðina alla, í gegnum þessar hremmingar en það er fyrst og fremst starfsmönnum og stjórnendum heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa að þakka að það tókst svona vel.

Mig langar til að óska velferðarráðherra hjartanlega til hamingju með hvert við erum komin á þessari stundu en ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að sjá ekki merki um afgerandi skref í þá átt að breyta skipulagi heilbrigðisþjónustunnar í þá átt að skila betri þjónustu og lægri útgjöldum í senn. Ég er hér einkum að tala um tvennt, samþættingu félags- og heilsugæsluþjónustu á vegum sveitarfélaganna — ég spyr hvað áformum um það líði — og einnig um sveigjanlegt tilvísanakerfi með innbyggðum fjárhagslegum hvata til að þjónustu sé leitað í heilsugæslunni en ekki í dýrustu sérgreinaúrræðunum.