141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni hvað varðar nýframkvæmdir í samgöngumálum sem eru afar mikilvægar fyrir þau samfélög sem þeirra framkvæmda njóta. Hv. þingmaður vísaði til Norðfjarðarganga sem koma til með að leysa Oddsskarðsgöngin af hólmi. Það er mjög mikilvægt og fagnaðarefni fyrir þá sem njóta og reyndar landsmenn alla. Síðan Dýrafjarðargöng sem ég tek undir með hv. þingmanni að eru gríðarlega mikilvæg samgöngubót og til þess fallin að tengja saman Ísafjarðarsvæðið og suðurfirðina og gera Vestfirðina að einni heild þar sem menn geta betur nýtt samfélagsþjónustuna á því svæði. Það er mjög mikilvægt og fagnaðarefni að þetta skuli koma.

Ég vil alveg afdráttarlaust segja það fyrir mína hönd að framlag til Dýrafjarðarganga á ekki að koma niður á samgöngum annars staðar á Vestfjörðum. Þetta er viðbótarframlag. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að Vestfirðir eigi að vera í forgangi einfaldlega vegna þess að ætli maður að bæta skóbúnaðinn hjá gangandi manni er fyrst horft til þess sem er skólaus og síðar til þess sem er sæmilega skæddur. Það liggur í augum uppi. Sú samlíking á við um Vestfirði í samgöngumálunum. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við höldum því til haga að fjármunir eigi að renna þangað í ríkari mæli hlutfallslega en til annarra hluta landsins. Mér finnst mjög mikilvægt að svo verði. Dýrafjarðargöng eiga alls ekki að koma niður á samgöngubótum annars staðar á Vestfjörðum. Það er mjög mikilvægt.