141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að taka þetta málefni til umræðu í þinginu. Ég tek undir það sem komið hefur fram gagnvart því mikla tjóni sem hefur orðið á rafmagnslínum og búfénaði.

Fram kemur í gögnum sem ég hef undir höndum og lögð voru fram í nefnd í morgun að í Skagafirði vanti um 4.500 til 6.500 kindur af fjalli. Talað er um að það geti verið 130–200 kílómetrar af girðingum sem eru ónýtir eða mjög illa farnir. Þetta er tekið saman af Eiríki Loftssyni héraðsráðunauti, en þó eru settir miklir fyrirvarar við þessar tölur vegna þess að það á eftir að koma endanlega í ljós hversu mikið tjónið verður.

Síðan eiga upplýsingar eftir að koma fram um hvaða áhrif þetta hefur á fallþunga þegar farið verður að slátra í haust, þannig að auðvitað liggur ekki fyrir hvert hið endanlega tjón mun verða.

Það er líka vitað að þetta mun koma misjafnlega mikið niður á bændum. Þetta mun koma mjög illa niður á sumum. Síðan hefur orðið mikið tjón hjá Landsneti og Rarik. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði skoðað að styrkja flutningslínurnar í ljósi þess sem þarna gerðist.

Að lokum, virðulegi forseti, verð ég að segja að það var mjög aðdáunarvert að sjá dugnað og þrautseigju bænda, björgunarsveitarmanna, starfsmanna Rariks og allra þeirra sem tóku þátt í björgunaraðgerðunum.

Mikilvægast í þessu öllu er það sem fram undan er, að stjórnvöld styðji þá bændur sem urðu fyrir tjóni í óveðri þessu. Ég fagna því sem hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði áðan, að búið er að virkja samráðshóp ráðuneytisstjóranna. Það veit á gott, að mínu mati, um framhaldið.