141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. (MÁ: Báknið burt, báknið burt.) Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var eiginlega lengri útgáfan af andsvari með allnokkrum spurningum en ég skal gera mitt besta til að svara þeim eins og þær komu fram.

Í fyrsta lagi langar mig að þakka fyrir umræðuna og segja almennt að það er töluverð viðleitni ráðuneytisins að setja viðaukana skýrara fram en áður hefur verið gert, þ.e. með því að setja viðaukana upp í töflur þar sem hver tegund framkvæmda er listuð upp og hafa síðan skilin milli A, B og C á sama stað en ekki í sérstökum aðgreindum viðaukum, einmitt ætlað til þess að vera nær því að vera eins og handbók fyrir framkvæmdaraðila. Þá er fljótlegt og auðvelt að átta sig á því hvar mörkin liggja og í hvern þessara þriggja flokka viðkomandi áform falla. Hér er mikið talað um tíma, flækjustig og því um líkt en menn haft virkilega lagt höfuðið í bleyti til að finna leið til að gera málin skýrari og einfaldari.

Við erum í þeirri stöðu að löggjöf hjá Evrópska efnahagssvæðinu er nokkuð forskrifuð í mörgum efnum, m.a. þessum, þannig að umræðan ætti kannski frekar að fjalla um framsetningu málsins vegna þess að við erum bundin af þessum samningum. ESA gefur okkur ákveðna leiðsögn og hún varðar mjög einfaldan hlut, þann að sá flokkur framkvæmda sem áður féll utan viðaukanna er nú kominn undir þetta ljós. Þá segjum við: Gott og vel, við erum komin með miklu fleiri framkvæmdir og áform sem falla undir löggjöfina. Höfum það þá eins skýrt og einfalt og nokkurs er kostur. Það er markmiðið. Vegna spurningar hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er því til að svara að reglugerð er í smíðum sem lýtur sérstaklega að þessari fjölgun tilkynninga sem falla undir C-flokkinn. Að öðru leyti eiga við núgildandi reglugerðir að því er varða flokk A og B.

Hv. þingmaður spurði líka um stöðu úrskurðarnefndar og Skipulagsstofnunar. Ég tek undir þau áhyggjuorð og styð þau sjónarmið sem koma fram í athugasemd þingmannsins að því er varðar þá staðreynd að við þurfum bæði fólk og fjármagn til að geta uppfyllt væntingar um hraða og gagnsæja málsmeðferð. Ég vænti þess að eiga hauk í horni hjá hv. þingmanni þegar kemur að því að afgreiða fjárlög í þágu þeirra stofnana sem um ræðir.

Hvað varðar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem áður var úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og hefur núna sama hlutverk þurfum við líka að sjá hvernig hlutverki hennar vindur fram í ljósi Árósasamningsins og hvort kærumálum fjölgar umtalsvert eða óverulega og hvernig sú reynsla kemur til með að verða. Við þurfum að vakta það mjög vel og sinna þörfum nefndarinnar í ljósi þeirrar reynslu sem við söfnum okkur á leiðinni, ef svo má að orði komast.

Hv. þingmaður fór yfir ýmiss konar framkvæmdir sem eru torkennilegar í þessari upptalningu. Vegna þess að ég hef hér ágætan tíma get ég alveg nefnt það en þingmaðurinn eiginlega sneri sjálfa sig niður jafnharðan og sagði að um útúrsnúning væri að ræða. Þarna er sannarlega um að ræða beina þýðingu á textunum eins og þeir koma fyrir og þetta er óbreytt frá því sem er í núgildandi lögum þannig að þarna eru engar áherslubreytingar. Sumt er torkennilegt en það hefur ákveðið hagræði í för með sér að láta allar mögulegar framkvæmdir falla þarna undir svo ekki þurfi stöðugt að bregðast við einhverjum jaðartilvikum með breytingum á lagaumhverfinu.

Hv. þingmaður nefndi líka sérstaklega framkvæmdaleyfisútgáfu sveitarfélaga. Það er auðvitað alveg réttur skilningur hjá hv. þingmanni en í framkvæmdarleyfisreglugerðinni er vísað í matsskyldar framkvæmdir í lögum um mat á umhverfisáhrifum og þess vegna þarf að gæta sérstaklega að þessu við málsmeðferð sveitarfélaganna. Það skýrir þann þátt.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir góða umræðu. Varðandi það sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi um skógrækt vil ég nefna að undir C-flokkinn fellur nýræktun skóga á allt að 200 hektara svæði sem breytir fyrri landnotkun. C-flokkurinn yfirtekur þau skógræktaráform sem falla undir 200 hektara stærð en það gildir um þau áform rétt eins og önnur að Skipulagsstofnun tekur síðan ákvörðun um það hvort viðkomandi framkvæmd sé matsskyld eða ekki á grundvelli gagna sem fram eru lögð og þeirra viðbótargagna sem stofnunin óskar eftir ef það á við. Þetta er bara til að skerpa nákvæmlega á þeim þætti. Svo óska ég hv. umhverfis- og samgöngunefnd alls góðs í umfjöllun sinni um málið.