141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

íþróttalög.

111. mál
[17:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að spyrja ráðherrann um lyfjaeftirlit í íþróttagreinum sem ekki starfa innan ÍSÍ, því að þetta er bara byggt á samningi milli íslenska ríkisins og ÍSÍ. Reyndar er tekið fram í greinargerð að mikill innflutningur sé á sterum og þetta komi ekkert endilega fram á lyfjaprófum í hinu skipulagða íþróttastarfi íþróttahreyfingarinnar sem slíkrar og því sé nauðsynlegt að vera með samstarf við aðra aðila. Það eru auðvitað margar íþróttagreinar sem standa utan við ÍSÍ. Cross fit er til dæmis mjög vaxandi, það eru lyftingar, síðast þegar ég vissi voru þær alla vega fyrir utan ÍSÍ, þríþraut, fitness, alls konar vaxtarrækt o.fl.

Nú er ég alls ekki að halda því fram að í þessum íþróttagreinum sé allt morandi í ólöglegum lyfjum eða lyfjanotkun, en þar sem ekkert eftirlit er er freistingin til að nota einhver töfrabrögð kannski meiri. Þess vegna langar mig að spyrja ráðherrann hvort hann hyggist beita sér fyrir einhvers konar samstarfi og með hvaða hætti það gæti þá verið.