141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hefja umræðuna og þakka Seðlabankanum fyrir viðamikla skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum þar sem allir helstu kostir eru kannaðir ítarlega. Ég vil einnig nota tækifærið og benda á nýútkomna skýrslu Seðlabankans um varúðarreglu eftir fjármagnshöft, en efni þeirrar skýrslu tengist svo sannarlega því sem við ræðum í dag.

Skýrsla Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum er mikilvægt innlegg í umræðuna um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar. Skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að þjóðin stendur frammi fyrir tveimur kostum. Það sem skiptir enn meira máli er að ef við lítum til fyrri skýrslna bankans þá teflir bankinn ekki fram tveimur jafnvígum kostum. Annar kosturinn byggist á upptöku evru eftir inngöngu í Evrópusambandið, hinn kosturinn er að halda í íslensku krónuna til framtíðar á grundvelli verðbólgumarkmiðs en þó með breyttri umgjörð frá því sem áður var um starfsemi fjármálafyrirtækja og frelsi til athafna. Í því samhengi er rétt að undirstrika að aðrir valkostir í gengismálum eru að mati Seðlabankans ólíklegir til að þjóna hagsmunum okkar Íslendinga til skemmri eða lengri tíma.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að upptöku evru geti fylgt verulegur ábati fyrir þjóðarbúið og þá almenning allan. Samkvæmt skýrslunni getur upptaka evru aukið hlutfall vöruviðskipta af landsframleiðslu um 4–11%. Landsframleiðslan gæti í kjölfarið aukist varanlega um 1,5–11%. Aðild að myntbandalaginu gæti einnig sparað gjaldeyrisforða, og við vitum öll hversu dýrt það er að hafa slíkan forða sem talinn er nauðsynlegur í dag. Greining Seðlabankans bendir auk þess til þess að innlendir raunvextir mundu lækka og innlendur fjármagnsstofn mundi stækka við upptöku evru eftir aðild að Evrópusambandinu.

Í kjölfarið mundi landsframleiðsla á hvern mann hækka. Því til viðbótar mundi upptaka evru auka stærðarhagkvæmni innlendrar framleiðslu og vera þannig fyrirtækjum til framdráttar og auðvelda samkeppni og verðsamanburð, sem kemur heimilum í landinu til góða.

Þrátt fyrir að niðurstaða skýrslunnar bendi ekki til þess að aðild að evrusvæðinu hafi áhrif á tíðni bankakreppna má ætla að þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum með mótun bankabandalags styrki umgjörð fjármálaþjónustu auk þess sem áhætta í bankastarfsemi yfir landamæri minnkar ef Ísland yrði aðili að evrusvæðinu og Seðlabanki Evrópu gæti í kjölfarið sinnt lausafjárfyrirgreiðslu til íslenskra banka.

Evrusvæðið býr við tvíþættan vanda um þessar mundir, annars vegar bankakreppu og hins vegar ríkisskuldakreppu einstakra ríkja en ekki gjaldmiðlakreppu. Evran hefur haldið verðgildi sínu í gegnum þrengingarnar. Að sjálfsögðu getur falist áhætta í núverandi kreppu evrusvæðisins en enginn heldur því fram að Ísland muni ganga í myntbandalagið fyrr en kreppan er yfirstaðin og mótuð hefur verið sterkari umgjörð fyrir efnahagssamstarf og fjármálaþjónustu innan sambandsins. Fyrst þurfum við að ljúka aðildarviðræðum og að því loknu fær þjóðin að kjósa um aðildarsamning þegar hann liggur fyrir. Ef samningurinn yrði samþykktur þyrfti Ísland að vera í gengissamstarfinu ERM II í að minnsta kosti tvö ár áður en til upptöku evru gæti komið. Það er því nægur tími fyrir Evrópusambandið að styrkja enn frekar umgjörð evrusamstarfsins og gera ábata þess enn meiri fyrir Ísland.

Hinn valkosturinn sem Seðlabankinn teflir fram er áframhaldandi fljótandi króna á verðbólgumarkmiði. Jafnvel þótt þjóðin kjósi að ganga í Evrópusambandið munum við þurfa að lifa með krónunni enn um sinn. Af þeim sökum eru tillögur Seðlabankans um hvernig styrkja megi umgjörð krónunnar og sú vinna sem í gangi er í fjármála- og efnahagsráðuneytinu um bætta umgjörð ríkisfjármála mjög mikilvægar hvort sem verður af inngöngu í Evrópusambandið með upptöku evru eða ekki. Sem valkostur er krónan til frambúðar allt annars eðlis en upptaka evru. Ólíkt því sem oft er haldið fram virðist sjálfstæður gjaldmiðill ekki hafa reynst Íslandi vel við að jafna hagsveiflur heldur vera sjálfstæð uppspretta óstöðugleika í hagkerfinu. Krónan virðist því vera valkostur sem felur í sér óstöðugleika fyrir heimili og fyrirtæki.

Hins vegar hefur Seðlabankinn lagt á það áherslu að hann fái aukin tæki og tól áður en gjaldeyrishöftunum verður létt, ekki síst ef halda á krónunni. Í skýrslum bankans um peningastefnu eftir höft og varúðarreglur eftir fjármagnshöft er sýn bankans á umgjörð krónunnar lýst ágætlega. Sú umgjörð sem bæta á framkvæmd peningastefnunnar og gera okkur kleift að lifa með sjálfstæðri krónu dregur hins vegar úr athafnafrelsi. Það er lausn sem er nær andstaða þess sem aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru fela í sér.

Í skýrslum Seðlabankans er kallað eftir skýrum kvöðum á innlenda banka og möguleika þeirra til athafna. (Forseti hringir.) Einnig að dregið verði úr aðgengi innlendra aðila að erlendri fjármögnun.

(Forseti (RR): Forseti gefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra 30 mínútur til viðbótar þannig að ósamræmi er á milli klukku forseta og klukku í ræðustól. (TÞH: Það er nú ansi ríflegt.) (Gripið fram í: 30 sekúndur.) 30 sekúndur. Það mátti reyna það, hv. þingmaður.)

Virðulegi forseti. Þá held ég áfram. Ég ræddi það einmitt áðan að með því að halda krónunni væri kallað eftir skýrum kvöðum á innlenda banka og möguleika þeirra til athafna en einnig væri dregið úr aðgengi innlendra aðila að erlendri fjármögnun. Auk þess er líklegt að Seðlabankinn mundi þurfa að byggja upp stóran og kostnaðarsaman gjaldeyrisforða svo hann geti sinnt markmiði um aukin inngrip á gjaldeyrismarkaði.

Það er vissulega mögulegt að lifa áfram með íslensku krónunni en því fylgja miklir gallar.

(Forseti (RR): Forseti vill upplýsa hv. þingmenn um það að klukkan er í ólagi og hyggst forseti taka mið af klukku á veggnum hér á móti.)